„Þetta er náttúrulega umræða sem gjarnan fer af stað fyrir forsetakosningar en það hefur engin ákvörðun verið tekin um að gera breytingar á þessu,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, í samtali við mbl.is en meðal þess sem rætt hefur verið um í tengslum við forsetakosningarnar sem fram fara í sumar er sá fjöldi meðmælenda sem forsetframbjóðendur þurfa. Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í áramótaávarpi sínu að hann ætlaði ekki að gefa áfram kost á sér í embættið sem hann hefur gegnt frá 1996.
Fyrir síðustu forsetakosningar þurftu forsetaframbjóðendur að skila inn undirskriftum að lágmarki 1.500 meðmælenda og að hámarki 3.000 en kveðið er á um þennan hámarks- og lágmarksfjölda meðmælenda í 5. grein stjórnarskrár lýðveldisins. Fram kemur í lögum um framboð og kjör forseta Íslands að sá ráðherra sem fari með málefni forseta Íslands, sem er forsætisráðherra, skuli auglýsa kosninguna í útvarpi og Lögbirtingablaði eigi síðar en þrem mánuðum fyrir kjördag og tiltaki þá „hámarks- og lágmarkstölu meðmælenda forsetaefnis úr landsfjórðungi hverjum í réttu hlutfalli við kjósendatölu þar.“
Þessi fjöldi meðmælenda, 1.500 að lágmarki og 3.000 að hámarki, hefur verið óbreyttur frá því að forseti var fyrst kjörinn í almennum kosningum árið 1952. Þá voru 85.877 manns á kjörskrá samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Fimmtán hundruð manns voru því rúm 1,7%% af kosningabærum einstaklingum. Við sveitarstjórnarkosningarnar 2014, sem voru síðustu almennu kosningar sem fram fóru hér á landi, voru hins vegar 239.734 manns á kjörskrá en 1.500 manns voru rúm 0,6% af þeim fjölda. 1,7% af 239.734 eru hins vegar rúmlega 4.000 manns.