Svo virðist sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, meti það sem svo að nú sé góður tími til að láta af embætti. Hann telji sig hafa náð markmiðum sínum í starfi og í nýársávarpi sínu lokaði hann öllum dyrum varðandi áframhaldandi setu á forsetastóli. Fyllsta ástæða er til að endurskoða fyrirkomulag forsetakosninga hér á landi, séu margir í framboði gæti forseti verið kosinn með litlum hluta greiddra atkvæða.
Þetta er mat Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Í nýársávarpinu fyrir fjórum árum sagðist hann ætla að hætta, en skildi eftir ofurlitla glufu varðandi áframhald. Ég sé enga slíka glufu núna, hann var miklu afdráttarlausari nú en þá og þess vegna finnst mér afar ólíklegt að hann fari fram á ný. En maður getur auðvitað aldrei verið alveg viss,“ segir Ólafur. „Hann útskýrði í ávarpinu hvers vegna hann vill gera þetta núna. Ég held að honum finnist þetta heppilegur tími til að hætta upp á sína arfleifð.“
Forsetakosningar verða laugardaginn 25. júní. og undanfarið hafa nokkrir lýst yfir áhuga sínum á framboði. Bent hefur verið á, að ef margir verði í framboði geti útkoman orðið sú að forseti verði kjörinn með litlum hluta greiddra atkvæða.
Ólafur segir fyrirkomulagið hér á landi, einfalda meirihlutakosningu sem er stjórnarskrárbundin, vera sjaldgæft. „Það er algengast að forsetar sem hafa ekki mikil völd eins og hér á Íslandi, séu þingkjörnir fremur en þjóðkjörnir. Og þar sem þeir eru þjóðkjörnir er algengt að hafa tvær umferðir. Ég held að það sé mjög fátítt að hafa einfalda meirihlutakosningu um forseta.“
Ólafur segir að erlendis tíðkist einkum tvenns konar fyrirkomulag. „Annars vegar tvær umferðir. Hins vegar kerfi eins og t.d. Írar eru með. Þar raða kjósendur frambjóðendunum og þannig er tryggt að ef enginn fær hreinan meirihluta á fyrstu atkvæðum er skoðað hvern kjósendur settu í annað sætið. Síðan eru tekin atkvæði þess sem er í 3. sæti og bætt við tvo efstu. Þetta kerfi tryggir hreinan meirihluta á bak við þann sem er kosinn.“ Ólafur hefur lagt til við Alþingi að írska aðferðin verði skoðuð, en það hefur ekki verið gert.
„Við gætum verið með tíu frambjóðendur, atkvæðin skiptast nánast jafnt á milli þeirra en einn fær aðeins meira. Þá værum við með forseta sem fékk rúm 10% atkvæða og það er algerlega fráleitt. “
Ólafur segir að eftir því sem embættið sé pólitískara sé ríkari ástæða til að sá sem kosinn er hafi hreinan meirihluta á bak við sig. „Það er mjög óeðlilegt að forseti, sem vill beita sér verulega pólitískt, sé kosinn af mjög litlum minnihluta.“