Jón Gnarr, ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365 og fyrrverandi borgarstjóri, mun á morgun, föstudag, tilkynna í einum af miðlum 365 hvort hann ætli að gefa kost á sér til framboðs til forseta Íslands. Hann vildi þó ekki, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum, segja í hvaða miðli 365 tilkynningin kemur.
„Ég get ekki sagt frá því að svo stöddu,“ sagði Jón er hann var inntur eftir svari. „Það er búið að reyna að veiða þetta upp úr mér, en ég segi ekkert.“
Spurður hvort hann hafi að undanförnu fundið fyrir miklum stuðningi við hugsanlegt framboð hans til forseta kveður Jón já við. „Ég hef fundið fyrir gríðarlega miklum stuðningi og hefur ólíklegasta fólk nálgast mig með þetta í huga. Þetta hefur í raun komið reglulega upp frá því að ég lét af embætti borgarstjóra.“
Aðspurður segist Jón nú vera „til alls vís“ þegar kemur að hugsanlegu framboði. Hann vill þó á þessari stundu ekki gefa neitt frekar upp.
Forsetakosningar verða haldnar 25. júní næstkomandi og hafa þegar nokkur framboð verið tilkynnt.