Davíð Þór íhugar forsetaframboð

Davíð Þór Jónsson, prestur og fyrrverandi grínisti.
Davíð Þór Jónsson, prestur og fyrrverandi grínisti. mbl.is

Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi og fyrrverandi grínisti, er að íhuga að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta staðfestir hann við mbl.is.

„Ég lét gott fólk taka út hjá mér loforð um að íhuga þetta mál mjög alvarlega. Ég reyni að standa við það sem ég lofa,“ segir Davíð Þór.

Hann segir að fólkið sem hafi haft sambandi við hann hafi áhyggjur af því að ef forsetakosningar á árinu 2016 eigi að snúast um makaval og orðuveitingar, þá sé embættið endanlega afhjúpað sem stjórnsýsluleg tímaskekkja.

Hefur áhyggjur af uppgangi fasisma

Að mati Davíð Þórs geta kosningarnar snúist um ákveðin grundvallaratriði sem hægt sé að byggja samfélagið á í framtíðinni. Hann segir að bæði hann og margir aðrir hafi miklar áhyggjur af því hvert stefnir. „Við getum bara horft til meginlands Evrópu, á uppgang fasismans þar. Við getum horft vestur um haf og séð skrímsli eins og Donald Trump og vinsældirnar sem hann nýtur þar. Það er búið að teikna ákveðna víglínu og þessum öflum er að vaxa fiskur um hrygg hér á Íslandi líka,“ segir Davíð Þór.

„Merkingarleysið sameiningartákn“

„Íslenskir stjórnmálamenn eru farnir að leggja það til raunverulega að ákveðinn hluti fólks verði sviptur sjálfsögðum mannréttindum vegna trúar og uppruna. Þessi ummæli kalla á umræður um þöggunartilburði góða fólksins en ekki siðferðislega getu þessara stjórnmálamanna til þess að gegna áhrifastöðum og það er áhyggjuefni,“ segir Davíð Þór og heldur áfram:

„Það er áhyggjuefni ef öll forsetaefnin sem fram koma ætla að flagga merkingarleysinu sameiningartákn vegna þess að það segir sig sjálft að mannúðar- og menningarlega sinnað fólk annars vegar og þjóðernissinnaðir og „anti-intellektúar“ hins vegar mun aldrei geta sameinast um neitt sem skiptir máli. Forseti sem þessir hópar geta sameinast um er þá forseti sem ekki skiptir neinu máli.“

Réttum megin við víglínuna

Davíð Þór bætir við að hann og margir aðrir vilji að forsetinn skipti máli og að hann taki sér stöðu réttum megin við þá víglínu sem er búið að teikna og hann tali afdráttarlaust gegn þessari þróun.

„Ákveðinn hópur fólks hefur komið að máli við mig og treyst mér til að vera talsmaður þessara sjónarmiða. Það sem ég mun gera á næstu vikum er að þreifa fyrir mér með það hvort þjóðin sé upp til hópa reiðubúin til að kjósa um þessi sjónarmið í næstu forsetakosningum,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert