Hrannar Pétursson félagsfræðingur hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hrannar bauð fjölmiðlum, fjölskyldu og vinum upp á morgunkaffi í tilefni dagsins.
Hrannar sagði framboðið eiga sér langan aðdraganda, enda hefði hann haft sterka skoðun á embættinu alla tíð.
Hér má sjá ræðu Hrannars í heild:
„Komiði sæl og verið innilega velkomin hingað á heimili okkar Margrétar, á Alþjóðlega hamingjudeginum sem einmitt er haldinn í dag.
Ég hef lengi haft áhuga og skoðanir á embætti forseta Íslands.
Árið 1980 gerði ég ítrekaðar tilraunir til að ræða um forsetakosningarnar við vini mína á leikvelli norður á Húsavík, en flestum 7 ára krökkum var sama um það, hvort Vigdís, Guðlaugur, Albert eða Pétur Thorsteinsson yrði forseti. Sumarið 1996 var ég fréttamaður á Bylgjunni og fylgdist náið með kosningabaráttunni. Skrifaði fréttir og gat rökrætt kosningarnar við vini og vandamenn.
Í ár kjósa Íslendingar sér nýjan forseta og í þetta sinn ætla ég ekki aðeins að fylgjast með og rökræða skoðanir einstakra frambjóðenda, heldur taka virkan þátt. Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.
Ég veit að sumum finnst það hégómleg ákvörðun að bjóða sig fram til forseta Íslands. En staðreyndin er sú, að forseti Íslands er venjuleg manneskja og embættið er ekki frátekið fyrir dægurstjörnur - stjórnmálamenn eða annað fólk sem telur sig útvalið til starfans. Forsetinn á að vera hluti af þjóðinni, en ekki yfir hana hafinn. Þannig forseti vil ég að verða. Framsýnn en alþýðlegur, venjulegur maður með einlægan áhuga á því að láta gott af mér leiða.
Mín skoðun er sú, að forsetinn eigi að horfa fram á við. Hann á að vera framsýnn og veita öðrum innblástur til góðra verka. Hann á að beita sér fyrir framförum, nýsköpun í atvinnulífi, menningu og menntun. Hann á að vera helsti talsmaður kynjajafnréttis í landinu og baráttumaður fyrir bættri lýðheilsu. Það eru mín helstu áherslumál.
Hann á ekki að reka sína eigin pólitísku stefnu og ekki taka þátt í dægurþrasi stjórnmálanna, en hann þarf skilja pólitík. Vita hvernig valdaþræðirnir í stjórnkerfinu liggja og hvernig ákvarðanir eru teknar. Það reynir vissulega á pólitískt læsi forsetans við ákveðnar aðstæður, en þá skiptir mestu máli að hann sé sanngjarn, standist utanaðkomandi þrýsting og sé trúr eigin sannfæringu.
Þetta stóra skref stíg ég að eigin frumkvæði og af einlægum áhuga. Ég er ekki fulltrúi einhverra afla í samfélaginu, sem hafa valið sér frambjóðanda fyrirfram, heldur vil ég tala fyrir málefnum sem mér finnst eiga brýnt erindi við okkur öll.
Ég hvet ykkur til að kynna ykkur mínar áherslur á heimasíðunni minni, á vefslóðinni. Þar eru öll helstu áherslumálin kynnt, bæði í máli og myndum.
Ég mun á næstu vikum og mánuðum leggja mig fram um að kynna mig og málefnin mín um allt land. Ég hlakka mikið til, en mun örugglega þurfa á ykkar hjálp að halda, kæru vinir.“
Í tilkynningu segir eftirfarandi um Hrannar:
Hrannar er 42 ára gamall félagsfræðingur með fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Hann
var framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá fjarskiptafyrirtækinu
Vodafone og talsmaður fyrirtækisins um árabil.
Hann starfaði áður sem upplýsingafulltrúi hjá Íslenska álfélaginu og fréttamaður í útvarpi og sjónvarpi. Hann hefur undanfarið starfað sjálfstætt og veitt fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf á sviði upplýsinga- og samskiptamála, þ.m.t. Stjórnarráði Íslands.
Hrannar er fæddur og uppalinn á Húsavík, annar í röð fjögurra sona Sólveigar Jónsdóttur
skólaliða og Péturs Skarphéðinssonar verkamanns. Hann er kvæntur Margréti Arnardóttur,
vélaverkfræðingi og viðskiptafræðingi. Hún starfar sem verkefnastjóri vindorku hjá
Landsvirkjun. Þau eiga samtals fjögur börn á aldrinum 5 til 18 ára - tvær stúlkur og tvo
drengi - og búa í Reykjavík.