Baráttan um Bessastaði harðnar

Hver tekur við á Bessastöðum í ár?
Hver tekur við á Bessastöðum í ár? mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nú eru 14 vikur til forsetakosninga og svo virðist sem kjósendur eigi erfitt verk fyrir höndum, ætli þeir að kynna sér alla frambjóðendur sem stefna á Bessastaði. Kosningarnar fara fram 25. júní en til­kynna þarf fram­boð fimm vik­um fyr­ir kosn­ing­ar, eða 21. maí.

12 einstaklingar hafa tilkynnt um framboð sitt, að minnsta kosti fjórir liggja undir feldi og erfitt er að henda reiður á þeim sem orðaðir hafa verið við embættið, en hafa ekki tjáð sig um það opinberlega.

Metsölurithöfundur og Youtube-stjarna með þeim fyrstu

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, var með þeim fyrstu sem lístu yfir áhuga á framboðinu, í nóvember 2015. Lítið hefur borið á Þorgrími eftir áramót, en hann er nú staddur í æfingaferð í Danmörku með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Þorgrímur hefur verið í landsliðsnefnd karla síðastliðin 8 ár, kann vel við sig í því starfi og segir landsliðið ganga fyrir. Þorgrímur mun ferðast með liðinu á lokakeppni EM sem fram fer í Frakklandi í júní.

„Þetta er kannski á versta tíma hvað fram­boðið varðar en mér er meira í mun að landsliðið standi sig vel í Frakklandi en að ég verði for­seti,“ sagði Þorgrímur í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í desember.

Þorgrímur Þráinnsson var meðal þeirra fyrstu sem tilkynnti um framboð …
Þorgrímur Þráinnsson var meðal þeirra fyrstu sem tilkynnti um framboð sitt til forseta, en hann segir velgengi karlalandsliðsins í knattspyrnu ganga fyrir embættinu. Þorgrímur ferðast með liðinu til Frakklands í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Ari Jósepsson, Youtube-stjarna, tilkynnti um framboð sitt á svipuðum tíma og Þorgrímur. Ari verður 35 ára 5. júní og verður því að öllum líkindum yngsti frambjóðandinn, en eitt af skilyrðum þess að mega bjóða sig fram til embættisins er að hafa náð 35 ára aldri.

Ari Jósepsson, Youtube-stjarna og yngsti forsetaframbjóðandinn.
Ari Jósepsson, Youtube-stjarna og yngsti forsetaframbjóðandinn. Ljósmynd/Af Facabook síðu Ara

Ástþór Magnússon, athafnamaður, tilkynnti um framboð sitt í byrjun árs, en hann ætlar að endurvekja for­setafram­boð sitt „Virkj­um Bessastaði.“ Ástþór hyggst einnig nýta sér nýjar leiðir í kosningabaráttu sinni, en hann er meðal annars mættur á Snapchat.  

Ástþór er hress á Snapchat.
Ástþór er hress á Snapchat. Ljósmynd/Snapchat

Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og Hildur Þórðardóttir, heila, voru fyrstu konurnar sem tilkynntu um framboð. Elísabet vill fyrst og fremst hafa það huggu­legt á Bessa­stöðum sem eiga að vera opn­ir að hennar mati og þar á jafnframt að vera mik­il traffík af fólki. „Þetta á ekki bara að vera hús úti í fjarska held­ur á að liggja þjóðbraut þangað,“ sagði Elísabet í samtali við mbl.is í janúar.

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur.
Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Er mars mánuður næsta forseta?

Í byrjun mars fór staðfestum framboðum fjölgandi. Sturla Jónsson, vörubílstjóri, lísti yfir áhuga sínum á embættinu í byrjun árs og á föstudag staðfesti hann framboð sitt í beinni útsendingu í þættinum Línan laus á Útvarpi Sögu.

Heimir Örn Hólmarsson, rafmagnstæknifræðingur, tilkynnti framboð sitt í byrjun mánaðarins, en hann hefur starfað í flug­geir­an­um í 10 ár „í störf­um sem hafa í senn verið tækni­lega og laga­lega krefj­andi og öðlast þaðan tölu­verða reynslu á alþjóðavett­vangi,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá Heimi Erni.

Hópur fólks sem hvatti Vigfús Bjarna Albertsson, sjúkrahúsprest, til að bjóða sig fram varð áberandi í byrjun mars og þann 6. mars tilkynnti Vigfús Bjarni um framboð sitt. „Ég veit að ég hef hug­rekki til að ganga inn í þess­ar aðstæður og tala upp­hátt,“ sagði Vig­fús þegar hann tók við 500 undirskriftum stuðningsmanna sinna á Hótel Borg, þar sem hann kynnti framboð sitt.

Séra Vigfús Bjarni Albertsson ásamt fjölskyldu sinni.
Séra Vigfús Bjarni Albertsson ásamt fjölskyldu sinni. mbl.is/ Árni Sæberg

Frumkvöðull og fyrrum Coca Cola framvkæmdastjóri

Í síðustu viku bættust Halla Tómasdóttir, frumkvöðull og rekstrarfræðingur og Bæring Ólafsson, fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri hjá Coca Cola, í hóp frambjóðenda.

Nafn Höllu kom fyrst upp í forsetaumræðunni fyrir áramót en Halla tilkynnti um framboð sitt á heimili sínu 17. mars. Í ræðu sinni sagði Halla að hún væri af þeirri lán­sömu kyn­slóð sem orðið hafi fyr­ir djúp­um áhrif­um af for­setatíð Vig­dís­ar.

Halla Tómasdóttir greindi frá forsetaframboði á heimili sínu í Kópavogi.
Halla Tómasdóttir greindi frá forsetaframboði á heimili sínu í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Bæring ætlaði að bjóða sig fram árið 2012 en hætti við þar sem hann vildi ekki bjóða fram gegn sitj­andi for­seta, Ólafi Ragn­ari Gríms­syni. Bæring telur að helsta verkefni forseta þessa stundina sé að sameina þjóðina. „Þjóðin virðist vera í mikl­um ólgu­sjó og ég held það þurfi mann sem hef­ur reynslu til að sam­eina þjóðina um þau mark­mið og mál­efni sem tryggja framtíðina fyr­ir landið í staðinn fyr­ir að vera að ein­blína of mikið á mis­tök fólks í fortíðinni og í smá­mál­um,“ sagði Bær­ing í samtali við mbl.is á föstudag.

Sunnudagur til framboðs

Í gær, sunnudag, bættust tveir frambjóðendur í hópinn. Hrannar Pétursson, félagsfræðingur, bauð fjöl­miðlum, fjöl­skyldu og vin­um upp á morgunkaffi þegar hann tilkynnti um framboð sitt. Hrann­ar sagði fram­boðið eiga sér lang­an aðdrag­anda og að hann hafi haft sterka skoðun á embætt­inu alla tíð.

Hrannar bauð fjölmiðlum, fjölskyldu og vinum upp á morgunkaffi þegar …
Hrannar bauð fjölmiðlum, fjölskyldu og vinum upp á morgunkaffi þegar hann tilkynnti um framboð sitt. mbl.is/Eggert

Guðmundur Franklín Jónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi formaður Hægri grænna, tilkynnti um framboð sitt í stöðuuppfærslu á Facebook í gær. „Eft­ir því sem ég hef elst og þrosk­ast, því bet­ur geri ég mér grein fyr­ir hvað ég er hepp­inn að vera Íslend­ing­ur og þakk­lát­ur fyr­ir þau for­rétt­indi að hafa fæðst og al­ist upp í þessu fal­lega landi okk­ar. Í ljósi þessa ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til for­seta Íslands,“ segir Guðmundur meðal annars í færslu sinni.

Hverjir eru ennþá líklegir?

Þá eru þeir upp taldir sem staðfest hafa framboð sitt enn sem komið er. Enn er þó fjöldi einstaklinga sem hefur verið nefndur á nafn.

Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi og fyrrverandi grínisti, Guðrún Nordal, pró­fess­or og for­stöðumaður Árna­stofn­un­ar, Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingkona, eru öll að íhuga forsetaframboð, en hafa ekki tilkynnt ákvörðun sína.

Auk þess hafa sum nöfn ítrekað komið upp í umræðunni, og þar má líklegast helst nefna stórsöngvarann Bergþór Pálsson og rithöfundinn Andra Snæ Magnason. Annar rithöfundur, Ólafur Jóhann Ólafsson, hefur einnig verið nefndur sem líklegur frambjóðandi, auk þess sem Vísir greindi frá því í febrúar að Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, væri líklegur frambjóðandi.

Enginn úr þessum hópi hefur þó tjáð sig opinberlega um mögulegt framboð. Tæplega 3500 manns hafa líkað við síðu á Facebook þar sem Andri Snær er hvattur til að fara fram og ljóst er að miðað við það hann ætti ekki í neinum erfiðleikum með að afla meðmæla, en forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosn­ing­ar­bærra manna og mest 3000. Fast á hæla stuðningssíðu Andra Snæs kemur stuðningssíða Bergþórs, en einungis munar örfáum líkendum á síðunum tveimur. 

Um 3.500 manns hafa líst yfir stuðningi sínum við framboð …
Um 3.500 manns hafa líst yfir stuðningi sínum við framboð Andra Snæs Magnasonar. Hann hefur hins vegar ekki tilkynnt um framboð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Humar á Bessastaði?

Ólíklegasta nafnið sem hefur skotið upp kollinum í umræðunni um mögulega forsetaframbjóðendur er Facebook stjarnan Humar Linduson Eldjárn, en hann tilheyrir fjölskyldu Ara Eldjárns, grínista, og því með forsetablóð í æðum. Stuðningssíða honum til heiðurs hefur verið stofnuð á Facebook og hafa rúmlega 700 manns líkað við hana. Humar hefur sjálfur tjáð sig um málið: 

ha! tessir sgora á Humar firi fosseda í bessasdöðum! Humar bruna í fjöruna! Humar sbá og sbaugglera! bles bles

Posted by Humar Linduson Eldjárn on Sunday, March 20, 2016
Humar uppfyllir ekki öll skilyrði til framboðs.
Humar uppfyllir ekki öll skilyrði til framboðs. Ljósmynd/Af Facebook

Því miður fyrir Humar er nokkuð víst að hann uppfyllir ekki öll þau skilyrði sem þarf til að bjóða sig fram, en það verður áhugavert að fylgjast með honum að loknum speguleringum. 

Í síðustu forsetakosningum, árið 2012, voru alls sex frambjóðendur. Nánast öruggt verður að teljast að það met verði slegið í ár, og það all hressilega. Þeir sem hafa áhuga á embættinu hafa að minnsta kosti ennþá 9 vikur til að tilkynna um framboð sitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert