Guðrún Margrét Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur og einn af stofnendum ABC hjálparstarfs, tilkynnti formlega um framboð sitt til forseta á Grand Hóteli rétt í þessu að viðstöddum vinum og velunnurum sem og fulltrúum fjölmiðla. Á fundinum var einnig kynnt ný framboðssíða Guðrúnar, gudrunmargret.is.
Sagðist Guðrún hafa „borað fingrum í Biblíuna“ þegar hún var að velta fyrir sér framboðinu og að upp hafi komið hvert versið á fætur öðru sem staðfesti fyrir henni og sannfærði um að hún ætti að sækjast eftir embættinu.
„„Ert'ekkað grínast? – „Nei, afhverju ekki þú?“ Þannig byrjuðu umræður okkar hjónanna um þetta forsetaframboð,“ sagði Guðrún í upphafi fundarins á Grand Hótel.
Sagði Guðrún frá því að hún hafi verið að ræða við vin í símann þegar eiginkona hans kallaði afhverju hún biði sig ekki fram. Hún hafi þá endurvarpað spurningunni til eiginmannsins þar sem hún stóð, ennþá í símarnum og hann hafi svarað að bragði „Já, afhverju ekki þú?“
„Þá fór ég að hugleiða málið, leita guðs með þetta. Er þetta eitthvað sem ég á að gera? Ég bora oft puttunum í Biblíuna og athuga hvað kemur upp. Og það kom upp vers eftir vers, staðfesting eftir staðfestingu og ég varð sannfærð um að það væri þetta sem ég ætti að gera.“
Nú er framboðið orðið að veruleika og sagðist Guðrún trúa því að hún eigi fullt erindi við forsetaembættið. Hún sjái að þjóðin gæti látið gott af sér leiða með því að standa saman og sjálf hafi hún brennandi áhuga á velferð þjóðarinnar.
„Ég trúi því að þetta sé eitthvað sem við getum gert, að við höldum gullnu reglunni í heiðri, að við stöndum saman, hugum að tungu okkar, menningu, trú og gildum og verðum sterk saman sem þjóð. Við göngum þessa hamingjuleið og vöxum í trú von og kærleika. Þess vegna býð ég mig fram sem forseta.“
Guðrún sagðist sjá forsetann sem mikilvægan öryggisventil. Forsetin hafi mörg störf en það að geta skotið málum til þjóðarinnar sé sérlega mikilvægt á örlagastundum. Eins þurfi hann að vera ímynd Íslands, rödd meðal þjóðanna, sameiningartákn þjóðarinnar og vinna að einingu, virðingu og sátt í þjóðfélaginu.
„Það sem hefur einkennt mig í gegnum tíðina helst er að ég er hugsjónamanneskja fram í fingurgóma,“ sagði Guðrún og ræðumenn sem kvöddu sér hljóðs að framboðsræðunni lokinni tóku í svipaðan streng. Þannig sagði eiginmaður hennar, Hannes Lentz hana hafa stærra hjarta en nokkur annar og þá lýsti bróðir Guðrúnar henni sem móður Theresu Íslands, og sagði hana hafa unnið kauplaust í þágu fátækra meirihluta sinnar starfsævi, með góðum stuðningi eiginmanns síns.
Áður en Guðrún lauk ræðu sinni benti hún einmitt sérstaklega á þá hugmynd sína að koma á árlegri góðgerðarviku þjóðarinnar „þar sem allir leggjast á eitt við að gera gott og við blessum þá sem minna mega sín af því að sælla er að gefa en þiggja. Og svo er eitt sem við getum alltaf gert og það er að biðja fyrir þjóðinni.
Ég hlakka til þessarar vegferðar og vænti þess að hún endi á Bessastöðum. Guð blessi ykkur.“