Fer Ólafur fram aftur?

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. mbl.is/Golli

Frá því að óvissa skapaðist um stöðu ríkisstjórnarinnar um tíma fyrir tveimur vikum síðan hafa verið uppi vangaveltur um það hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kynni að endurskoða þá afstöðu sína að gefa ekki áfram kost á sér í embætti. Þá ákvörðun kynnti hann um áramótin en á blaðamannafundi fyrir um hálfum mánuði, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra fór á fund hans og óskaði eftir þingrofi, var Ólafur spurður að því hvort hann kynni að endurskoða afstöðu sína.

Það vakti athygli að Ólafur kaus að svara spurningunni ekki beint en hélt þess í stað ræðu þar sem hann talaði meðal annars um mikilvægi þess að tímum sem þessum væri sterkur forseti við stjórnvölinn. Ekki hafa fengist svör frá Ólafi síðan hvort hann kynni að gefa aftur kost á sér þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar en hann hefur gegnt embættinu allar götur frá árinu 1996. Ólafur var endurkjörinn fyrir fjórum árum með tæplega 53% atkvæða en helsti mótframbjóðandi hans, Þóra Arnórsdóttir, hlaut hins vegar rúman þriðjung atkvæða.

Forsetaritarinn „þögull sem gröfin“

Blaðamannafundur sem Ólafur Ragnar hefur boðað til á Bessastöðum í dag klukkan 16:15 hafa aukið á þessar vangaveltur þó ekkert sé vitað um efni hans. Fréttatilkynning forsetaembættisins var á þessa leið: „Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson boðar til blaðamannafundar á Bessastöðum í dag mánudag 18. apríl kl 16:15.“ Örnólfur Thorsson forsetaritari vildi ekkert gefa upp í samtali við mbl.is um efnið umfram það sem fram kæmi í tilkynningunni. „Þú verður bara að segja að ég hafi verið þögull sem gröfin,“ sagði hann aðspurður.

Stjórnmálafræðingar hafa að undanförnu sagt að ekkert sé hægt að útloka í þessum efnum. Stefanía Óskarsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, sagði fyrir viku við Morgunblaðið að umrótið í stjórnmálum landsins hefði aukið spurnina eftir Ólafi. Ekki síst ef stjórnarkreppa yrði eftir næstu þingkosningar. Þá sýndi reynslan að það reyndi á forsetann. Ólafur H. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, tók í svipaðan streng um sama leyti í samtali við Morgunblaðið: „Ég myndi ekki útiloka neitt á þessum tímapunkti.“

Ólafur Ragnar nýtur mikils trausts

Grétar Þór Eysteinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, tók þó nokkuð annan pól í hæðina í samtali við mbl.is 8. apríl. Taldi hann ólíklegt að Ólafur byði sig fram á nýjan leik. Hann túlkaði ekki orð Ólafs á blaðamannafundinum fyrir tveimur vikum á þá leið að líklegt væri að hann ætlaði að hætta við að hætta. Atburðirnir á stjórnmálasviðinu minntu hins vegar á hversu miklu máli gæti skipt að forsetinn hverju sinni væri vel að sér í þeim efnum og í stjórnskipun landsins. Slíkur frambjóðandi gæti því stigið fram.

Hvort sem Ólafur Ragnar annars kýs að endurskoða fyrri afstöðu sína og gefa áfram kost á sér í forsetaembættið er ljóst ef marka má niðurstöður skoðanakannana að hann nýtur mikils trausts hjá þjóðinni. Þannig sýndi skoðanakönnun MMR sem birt var 6. apríl að 54,2% landsmanna bera mikið traust til Ólafs. Einungis einn einstaklingur á vettvangi stjórnmálanna naut meiri stuðnings en það var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem naut trausts hjá 59,2% landsmanna. Fyrri kannanir benda einnig til þess að mikil ánægja hafi verið með störf Ólafs allt kjörtímabilið.

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert