Forsetinn skapaði óvissuna sjálfur

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata segir það ekki hægt að kjörinn þjóðarleiðtogi sé við völd í sex kjörtímabil. Hún segir að vera hans í forsetastól muni ekki eyða þeirri óvissu sem ríki í íslenskum stjórnmálum enda ber hann ábyrgð á henni að miklu leyti að hennar mati.

Þá segir hún jafnframt að með þessari löngu dvöl sinni á Bessastöðum sem mögulega verður að minnsta kosti fjórum árum lengri er Ólafur Ragnar að setja Ísland „enn frekar inn í þann félagsskap sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í með uppljóstrunum Panama-skjalanna.“

„Eina landið sem er nálægt okkur þar sem eitthvað sambærilegt fær að gerast er Hvíta Rússland. Svo þarf maður að fara enn þá lengra til að fá fleiri sambærileg dæmi. Það eru eiginlega bara kóngar sem hafa verið svona lengi við völd.“

Birgitta segir það ekki gott að einhver sitji sem forseti í sex kjörtímabil, sama hver það er og hvað hann hafi gert. „Þó það væri sjálfur Jesú Kristur, þá væri það bara komið ágætt.“

Birgitta setur spurningamerki við ýmislegt sem Ólafur Ragnar sagði á blaðamannafundinum fyrr í dag. „Mér finnst athyglisvert að hann gefi sér að stjórnarmyndunarviðræðurnar verði erfiðar, ég hef ekkert séð sem gefur það til kynna ennþá,“ segir Birgitta. „Svo fannst mér ég heyra forsetann segja að hann geti skrifað stjórnskipunina betur en aðrir og á þá væntanlega við hvernig forsetaembættið er skipað.  Þarna er hann kominn inn á svæði sem er ekki heppilegt.“

Á blaðamannafundinum í dag talaði Ólafur Ragnar um óvissu framundan í íslenskum stjórnvöldum. Að mati Birgittu er eina óvissan í íslenskum stjórnmálum sú sem hann skapaði sjálfur þegar hann skipaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í stað Bjarna Benediktssonar.

„Ég held að hann beri töluvert mikla ábyrgð á þessari óvissu og  ég er ekki viss um að hans tilvera á forsetastóli muni nokkuð eyða því óvissuástandi sem er á landinu okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert