„Ólafur hlýtur að vera svona einstakur“

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að gefa kost á sér sem forseti áfram kom Guðna Th. Jóhannessyni á óvart í ljósi nýársávarps hans. Staðan í samfélaginu sé ekki þannig að sitjandi forseti verði að halda áfram. Sjálfur segist hann ætla að tilkynna um hugsanlegt framboð sitt „fljótlega“.

„Þetta kemur mér satt að segja á óvart. Ég hefði haldið miðað við yfirlýsingu forseta í nýjársávarpi að þau orð stæðu. Þrátt fyrir umrót síðustu daga og vikna er staðan í samfélaginu ekki þannig sýnist mér að framtíð Íslands sé í veði og forseti sem hefur setið í embættið frá 1996 verði að halda áfram,“ segir Guðni um tilkynningu Ólafs Ragnars.

Ákvörðun forsetans letur aðra frekar en hvetur til að gefa kost á sér að mati Guðna enda hefur hefðin á Íslandi verið sú að sitjandi forseti stendur afskaplega vel að vígi.

„Hvað sem menn vilja um Ólaf Ragnar segja nýtur hann hylli margra þó að sumir sem hafa stutt hann hingað til séu nú greinilega orðnir hugsi yfir því að hann skipti ítrekað um skoðun í svona veigamiklu máli,“ segir hann.

Fljótlega er teygjanlegt hugtak

Guðni hefur verið orðaður við forsetaframboð og hafði hann áður lýst því yfir að hann myndi tilkynna um ákvörðun sína í þessari viku. Þá átti hann hins vegar ekki von á að landslagið breyttist með þessum hætti.

„Ég ætla að leyfa mér að hugsa það aðeins áfram í góðra vina hópi. Þessi ákvörðun Ólafs hlýtur að hafa nokkur áhrif á bæði þá sem þegar hafa tilkynnt um framboð og þá sem hafa verið að íhuga það. Sem betur fer er nægur tími enn til stefnu. Ákvarðanir tekur maður í góðu tómi en samt hratt og örugglega. Við skulum bara segja að það gerist fljótlega. Það er teygjanlegt hugtak eins og strax,“ segir Guðni.

Nái Ólafur Ragnar endurkjöri verður það sjötta kjörtímabil hans sem forseti Íslands. Við lok þess myndi hann hafa gegnt embættinu í 24 ár samfleytt. Guðni segir það einstakt í lýðveldissögu Íslands og nánast einstakt í sögu vestrænna lýðræðisríkja.

„Ólafur hlýtur að vera svona einstakur,“ segir Guðni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert