Bæring Ólafsson, forsetaframbjóðandi, er langt frá því að vera sáttur við ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig aftur fram til embættis forseta Íslands.
„Þetta kemur mér gjörsamlega á óvart. Ég tel það alveg greinilegt fyrir alla þjóðina að Ólafur Ragnar Grímsson er ekki maður sinna orða,“ segir Bæring, sem vildi ekkert tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Bæring bauð sig fram sem forseta fyrir mánuði síðan. Í viðtali við mbl.is í mars sagðist hann hafa ætlað að bjóða sig fram fyrir kosningarnar 2012 en hætti við því hann vildi ekki bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.
„Ég hef alltaf fundið fyrir stolti gagnvart forseta landsins og tel að menn eigi ekki að bjóða sig fram gegn hæfum og vinsælum forseta. Þar af leiðandi gerði ég það ekki en hugsaði mér þó gott til glóðarinnar: kannski 2016. Nú er tíminn,“ sagði Bæring í síðasta mánuði.
Frétt mbl.is: Vildi ekki bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari