Verður sami húsbóndi næst?

Það var nokkuð þröngt á þingi í Thomsen-stofunni.
Það var nokkuð þröngt á þingi í Thomsen-stofunni. mbl.is/Golli

Það er óhætt að segja að stemningin í Thomsen-stofu Bessastaða hafi verið spennuþrungin mínúturnar áður en blaðamannafundur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, hófst þar klukkan 16:15. Þegar mest var voru um 25 blaðamenn og ljósmyndarar inn í herberginu ásamt starfsfólki forsetaembættisins. Stuttu áður en fundurinn hófst var orðið vel heitt í herberginu og var tekin ákvörðun um að opna þar glugga og ekki veitti af.

Thomsen-stofan er eins og margir vita fallegt herbergi, hlaðið af myndum frá forsetatíð Ólafs Ragnars en kom það nokkrum fjölmiðlafólki á óvart að blaðamannafundurinn færi þar fram, í stað stóra salsins þar sem Ólafur Ragnar tók á móti fjölmiðlafólki fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Finnst blaðamanni þó eins og það sé heil eilífð síðan, en eins og kunnugt er boðaði Ólafur Ragnar til óvænts blaðamannafundar þriðjudaginn 5.apríl þegar hann sagði frá ákvörðun sinni um að veita þáverandi forsætisráðherra ekki heimild til þingrofs. Ýmislegt hefur gerst síðan.

Það var ekki mikið um samræður milli fjölmiðlafólks síðustu mínúturnar fyrir fundinn. Flestir reyndu einfaldlega að koma sér fyrir eins nálægt skrifborði forsetans og þeir gátu og eftir það var það eina í stöðunni að bíða. Flest þeirra fáu orða sem blaðamaður mbl.is heyrði voru þó aðallega í þá áttina að fólk vissi ekki alveg við hverju var að búast. Þó svo að marga grunaði um hvað fundurinn myndi snúast var enginn alveg viss.

Á slaginu 16:15 gekk forsetinn inn og stóð hann bakvið skrifborðið og bauð fólk velkomið. Þar næst las hann upp yfirlýsingu sína þar sem eins og flestum er kunnugt  sagði hann frá því að hann myndi gefa kost á sér til endurkjörs í komandi forsetakosningum. Dorrit Moussaieff forsetafrú, var ekki á staðnum, að minnsta kosti sást ekki til hennar á fundinum.

Ólafur Ragnar á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Golli

 Blaðamannafundurinn stóð yfir í hálfa klukkustund og fór mestur tími í að svara spurningum blaðamanna. Var augljóslega mikill áhugi hjá þeim að koma sínum spurningum á framfæri og kom það fyrir að forsetinn þurfti að stoppa suma blaðamenn og „leyfa þeim sem hafa ekki spurt áður að komast að“.

Fjölmiðlafólk pakkaði síðan saman hlutunum sínum og fóru út í sólskinið og rokið sem virðist einkenna svæðið í kringum híbýli forsetans.  Blaðamaður velti fyrir sér á heimleiðinni hvenær hún fengi nú næst að koma á Bessastaði og hver verður þá þar húsbóndi. Það veit enginn en eitt er víst, Ólafur Ragnar er mættur í framboð.

Ólafur Ragnar gengur út af blaðamannafundinum.
Ólafur Ragnar gengur út af blaðamannafundinum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert