„Jæja, þessi mótmæli stjórnarandstæðinga síðustu daga voru þá ekki til einskis,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni og vísar hann þar til ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að gefa áfram kost á sér í embættið. Ólafur tilkynnti um ákvörðunina á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær.
Meðal þess sem Ólafur Ragnar skírskotaði til í ávarpi sínu á blaðamannafundinum voru mótmælin á Austurvelli í kjölfar þess að upplýst var að þriggja ráðherra hafi verið getið í svonefndum Panama-skjölum um tengsl við aflandsfélög í skattaskjólum. Sagði hann það ekki hafa gerst áður að mótmælt væri dögum saman. Mótmælin hafi þannig skilað þeim sem tóku þátt í þeim því að Ólafur hafi ákveðið að gefa áfram kost á sér þrátt fyrir fyrri ummæli um að láta af embætti.