„Ég er sallarólegur og glaður“

Guðni Th. Jóhannesson finnur ætlar að nýta tímann vel áður …
Guðni Th. Jóhannesson finnur ætlar að nýta tímann vel áður en hann tilkynnir ákvörðun sína um forsetaframboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands, liggur enn undir feldi þegar kemur að forsetaframboði.

„Ég er ennþá að hugsa mitt ráð,“ segir Guðni, sem var í bíltúr með fjölskyldunni þegar mbl.is náði tali af honum í dag.

„Stundum þarf að taka skjótar ákvarðanir og þá gerir maður það, stundum vinnur tíminn með manni og þá leyfir maður honum að gera það. Þannig ég er bara sallarólegur og glaður.“

Guðni tjáði sig um forsetaframboðið á sumardaginn fyrsta, nokkrum dögum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um að hann myndi gefa kost á sér í kosningunum í sumar. Þar sagði Guðni meðal annars: „Veit ég var bú­inn að lofa að koma und­an feldi í sum­ar­byrj­un en það fyrsta sem ég sá þegar ég gægðist út var Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son.“ Guðni vill því gefa sér lengri tíma til umhugsunar.

Aðspurður um hvort staða hans innan fræðasamfélagsins hafi áhrif á ákvörðun sína segir Guðni: „Ég veit bara það að enginn er ómissandi, sama um hvaða embætti er að ræða, hvort sem það er embætti forseta eða staða háskólakennara. Það kemur alltaf maður í manns stað, sem betur fer.“

Guðni segist jafnframt finna fyrir miklum stuðningi á meðan hann hugsar sig um. „Maður finnur fyrir stuðningi og hvatningu og hugsar sitt ráð áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert