Frambjóðendur endurmeta stöðuna

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það má vel vera að ég sé að draga í land,“ segir Bæring Ólafsson forsetaframbjóðandi. Hann fer nú yfir mál viðvíkjandi framboði sínu og hyggst tilkynna um næstu skref með fréttatilkynningu á morgun.

„Þið fáið tilkynninguna fyrir klukkan átta í fyramálið,“ sagði Bæring þegar mbl.is spurði hann frekar út í málavöxtu. Erindi blaðamanns var að kanna hvernig kosningabarátta hans gengi.

Bær­ing sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti tilkynnti um að hann hygðst sækjast eftir endurkjöri - öndvert fyrri yfirlýsingu - vera ósáttur við þá ákvörðun.  „Þetta kem­ur mér gjör­sam­lega á óvart. Ég tel það al­veg greini­legt fyr­ir alla þjóðina að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son er ekki maður sinna orða,“ sagði Bær­ing þá.

Í viðtali við mbl.is á fyrri stigum sagðist Bæring hafa ætlað að bjóða sig fram fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2012. Hefði hins vegar hætt við því hann vildi ekki bjóða sig fram gegn sitj­andi for­seta.

Alls eru tólf frambjóðendur komnir fram auk Bærings; Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

Frambjóðendurnir Vigfús Bjarni Albertsson, Guðmundur Franklín Jónsson og Heimir Örn Hallgrímsson hafa kippt að sér hendinni - og eru hættir við.

„Það gengur mjög illa og mér finnst ósennilegt að ég nái þeim fjölda meðmælenda að ég geti lagt inn framboð,“ segir forsetaframbjóðandinn Benedikt Kristján Mewes mjólkurfræðingur við mbl. „Þó vil ég ekki gefast upp enda myndi það valda stuðningsmönnum mínum vonbrigðum,“segir Benedikt. Hann undirstrikar þó að enn séu nokkrar vikur til stefnu - en ljóst megi vera að á brattann sé að sækja.

Bæring Ólafsson forsetaframbjóðandi.
Bæring Ólafsson forsetaframbjóðandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert