Vill að Ólafur geri grein fyrir eignum

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hverj­ar eru eign­ir Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, for­seta Íslands og eig­in­konu hans Dor­rit­ar Moussai­eff og hvernig eru þær geymd­ar? Hafa þau fjár­fest í ein­hverju sem gæti leitt til þess að þjóðin líti svo á að hags­mun­ir þeirra stang­ist á við hags­muni þjóðar­inn­ar, t.d. ef þau eiga kröf­ur á föllnu bank­ana? Að þessu spyr Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag.

Kári seg­ir þar að fjár­hags­leg­ir hags­mun­ir for­set­ans séu einnig eign­ir Dor­rit­ar og fjöl­skyldu henn­ar. „Sú rök­semd að þetta séu eign­ir henn­ar en ekki hans virk­ar ekki. Hún virkaði ekki fyr­ir Sig­mund Davíð og hún mun ekki virka fyr­ir Ólaf Ragn­ar,“ seg­ir Kári í grein­inni.

Seg­ir Kári að þessa stund­ina sé ís­lenskt sam­fé­lag ekki að kikna und­an umb­urðarlyndi fyr­ir auðkýf­ing­um og láti það pirra sig að bilið milli þeirra sem eiga eign­ir og þeirra sem eiga slíkt ekki sé alltaf að aukast.Þannig telj­ist eðli­legt að ganga úr skugga um að eigna hafi verið aflað á heiðarleg­an hátt og að af þeim séu greidd op­in­ber gjöld hér á landi.

Kári tek­ur fram að hann telji fram­göngu Ólafs í Ices­a­ve mál­inu hafa verið góða og að hann eigi bæði virðingu og þökk skilið fyr­ir það. „Það breyt­ir því hins veg­ar ekki að ef hann vill sitja enn eitt kjör­tíma­bilið ber hon­um að upp­lýsa þjóðina um það hvar fjár­hags­leg­ir hags­mun­ir hans liggja þannig að hún geti metið hvort þeir stang­ist á við henn­ar,“ seg­ir Kári.

Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum.
Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son á Bessa­stöðum. Golli / Kjart­an Þor­björns­son

Þá seg­ir hann mik­il­vægt fyr­ir for­set­ann að út­skýra fyr­ir þjóðinni hvers vegna sú ákvörðun hafi verið tek­in að greiða ekki op­in­ber gjöld á Íslandi af þeim eig­um sem þau hjón eigi í út­lönd­um. Seg­ir Kári há­vær­ar radd­ir um að sú ákvörðun hafi ekki verið tek­in með hags­muni þjóðar­inn­ar í huga held­ur með hags­muni Ólafs Ragn­ars í huga. „Það hlýt­ur að telj­ast grá­bölvað að menn hafi það á til­finn­ing­unni að for­seti lýðveld­is­ins sé að reyna að koma sér und­an því að greiða keis­ar­an­um það sem keis­ar­ans er,“ seg­ir Kári.

„Ég vona að Ólaf­ur Ragn­ar sjái hag sinn í því að fara að þessu, vegna þess að ann­ars mun það reyn­ast næsta ómögu­legt fyr­ir okk­ur aðdá­end­ur hans, fjöl­marga, að hjálpa hon­um við að breyta Bessa­stöðum í elli­heim­ili,“ bæt­ir Kári við að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert