Hverjar eru eignir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og eiginkonu hans Dorritar Moussaieff og hvernig eru þær geymdar? Hafa þau fjárfest í einhverju sem gæti leitt til þess að þjóðin líti svo á að hagsmunir þeirra stangist á við hagsmuni þjóðarinnar, t.d. ef þau eiga kröfur á föllnu bankana? Að þessu spyr Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Kári segir þar að fjárhagslegir hagsmunir forsetans séu einnig eignir Dorritar og fjölskyldu hennar. „Sú röksemd að þetta séu eignir hennar en ekki hans virkar ekki. Hún virkaði ekki fyrir Sigmund Davíð og hún mun ekki virka fyrir Ólaf Ragnar,“ segir Kári í greininni.
Segir Kári að þessa stundina sé íslenskt samfélag ekki að kikna undan umburðarlyndi fyrir auðkýfingum og láti það pirra sig að bilið milli þeirra sem eiga eignir og þeirra sem eiga slíkt ekki sé alltaf að aukast.Þannig teljist eðlilegt að ganga úr skugga um að eigna hafi verið aflað á heiðarlegan hátt og að af þeim séu greidd opinber gjöld hér á landi.
Kári tekur fram að hann telji framgöngu Ólafs í Icesave málinu hafa verið góða og að hann eigi bæði virðingu og þökk skilið fyrir það. „Það breytir því hins vegar ekki að ef hann vill sitja enn eitt kjörtímabilið ber honum að upplýsa þjóðina um það hvar fjárhagslegir hagsmunir hans liggja þannig að hún geti metið hvort þeir stangist á við hennar,“ segir Kári.
Þá segir hann mikilvægt fyrir forsetann að útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna sú ákvörðun hafi verið tekin að greiða ekki opinber gjöld á Íslandi af þeim eigum sem þau hjón eigi í útlöndum. Segir Kári háværar raddir um að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin með hagsmuni þjóðarinnar í huga heldur með hagsmuni Ólafs Ragnars í huga. „Það hlýtur að teljast grábölvað að menn hafi það á tilfinningunni að forseti lýðveldisins sé að reyna að koma sér undan því að greiða keisaranum það sem keisarans er,“ segir Kári.
„Ég vona að Ólafur Ragnar sjái hag sinn í því að fara að þessu, vegna þess að annars mun það reynast næsta ómögulegt fyrir okkur aðdáendur hans, fjölmarga, að hjálpa honum við að breyta Bessastöðum í elliheimili,“ bætir Kári við að lokum.