Hrannar Pétursson ætlar að draga framboð sitt til forseta Íslands til baka. Þessu lýsti hann yfir á fundi frambjóðenda í Háskólanum i Reykjavík í hádeginu. Ástæðuna segir hann óvænta ákvörðun forsetans um að bjóða sig fram til endurkjörs.
Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, að bjóða sig aftur fram í embættið breytti eðli kosninganna og var óvænt, að sögn Hrannars. Í ljósi aðstæðnanna sagði hann draga framboð sitt til forseta til baka.
Sýn hans á embættið væri óbreytt. Forseti ætti að tala yfir átakalínur og sætta ólíka sjónarmið. Þakkaði hann þeim sem hefðu lagt honum lið í framboði sínu.