Stórar hugmyndir um forsetaembættið voru bornar á borð þegar sjö forsetaframbjóðendur kynntu áherslur sínar á opnum fundi í Háskóla Reykjavíkur í dag. Ný stjórnarskrá, náttúruvernd, friður og kærleikur voru á meðal þess sem frambjóðendurnir nefndu. Einn þeirra lýsti kosningum sem vali á milli fortíða og framtíðar.
Sjö frambjóðendur mættu til leiks á fundinn sem Stúdentafélag HR efndi til. Einn þeirra heltist þó úr lestinni strax í upphafi því Hrannar Pétursson lýsti því yfir í kynningu sinni að hann ætlaði að draga sig í hlé vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig fram aftur. Annar, Benedikt Kristján Mewes, viðurkenndi einnig að honum þætti ólíklegt að hann yrði í framboði þar sem hann hafi ekki náð að safna undirskriftum sér til stuðnings.
Aðrir frambjóðendur, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, afþökkuðu boð um að taka þátt í fundinum sem er sá fyrsti sinnar tegundar í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í sumar.
Andri Snær Magnason sagðist hafa boðið sig fram því hann vildi sjá Íslendinga standa fyrir eitthvað mikilvægt og hann legði fram þrjár stórar hugmyndir til að það yrði að veruleika á næstum árum. Nefndi hann náttúru, lýðræði og menningu í þeim efnum.
Lagði hann áherslu á stofnun þjóðgarðs á Miðhálendinu sem hann sagðist telja myndu verða eina þeirra stóru hugmynda sem hans kynslóð gæti lagt fram, að lokið verði við gerð nýrrar stjórnarskrár og að hlúð verði að tungumálakennslu barna sem flytja til Íslands.
Ástþór Magnússon deildi hart á aðra frambjóðendur. Sagði hann einn þeirra hafa verið á ríkisspena í níu ár og sæktist nú eftir stærri spena og virtist vísa til Andra Snæs sem hefur þegið rithöfundalaun. Sakaði hann Ólaf Ragnar jafnframt um að hafa verið á spena ríkisins og hafa orðið uppvísan að lygum. Sjálfur sagði Ástþór aldrei hafa þegið krónu frá ríkinu og að hann hafi spáð fyrir um hrunið á Íslandi þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta árið 1996.
Lofaði hann því að hala inn 600 milljörðum króna til Íslands með því að fá friðariðnað sem þriðja atvinnuveg landsins. Ísland verði land friðar, mannréttinda og umhverfisverndar. Talaði hann fyrir beinu lýðræði og að þjóðin sjálf fái að ráða sínum málum.
Benedikt Kristján Mewes sagðist vonast til að verða fyrsti samkynhneigði forseti heims en viðurkenndi að hann yrði líklega ekki í framboði að þessu sinni. Hann vildi berjast fyrir að útrýma launamun kynjanna og uppræta einelti og ofbeldi á Íslandi.
Guðrún Margrét Pálsdóttir sagðist vilja að Íslendingar hefðu kærleika að leiðarljósi, að þeir standi saman og hjálpi hver öðrum. Sagðist hún vilja sjá að haldin yrði árleg góðgerðarvika þjóðarinnar. Hún vilji standa vörð um rætur þjóðarinnar og hlúa að tungumálinu, trúnni og sögunni.
Halla Tómasdóttir lýsti forsetakosningunum sem valið á milli fortíðar og framtíðar. Sagðist hún þeirra skoðunar á íslenskir nemendur ætti að fara utan til að öðlast reynslu í öðrum samfélögum en markmiðið ætti að vera að skapa aðstæður hér á landi til að þeir vilji snúa aftur heim á eftir. Hún væri sannfærð um að allt væri til staðar á Íslandi til að gera gjöfult og gott samfélag fyrir alla.
Talaði Halla fyrir því að gildi þjóðfundar sem var haldinn árið 2009 yrðu innleidd um heiðarleika, réttlæti, virðingu og jafnrétti. Það væri grunnur að góðu samfélagi. Nauðsynlegt væri að innleiða þessi gildi til þess að traust geti ríkt á ný í samfélaginu. Skoraði hún á ungt fólk að velja framtíðina í kosningunum og sagðist hún gefa kost á sér til að leiða þá vegferð.
Hildur Þórðardóttir sagðist algerlega óháð stjórnmálaflokkum og hún ætti engar eignir í skattaskjólum. Nauðsynlegt væri að kjósa fólk sem væri ekki hluti af kerfinu. Hún sagðist vera stuðningsmaður stjórnarskrárbreytinga og nauðsynlegt væri að forsetinn greiddi götu þeirra vegna þess að þær væru upphafið að nýju samfélagi sem landsmenn þrái svo heitt að byggja.
Frambjóðendurnir voru spurðir út í fullveldi Íslands og hvernig þeir myndu bregðast við ef skerða ætti það með alþjóðlegum samningum eða aðild að ríkjasamböndum. Flestir frambjóðendurnir nefndu að þeir ætluðu að standa vörð um fullveldi Íslands. Þeir voru hins vegar einnig á því að allar slíkar ákvarðanir eigi að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Spurð að því hvaða framtíðarsýn hún hefði fyrir ungt fólk á Íslandi sagðist Halla vilja setja jafnréttirmál á oddinn og að Ísland yrði fyrsta land í heimi til að brúa kynjabilið. Hún teldi brýnt að mennta fólk óháð fjárhagslegri stöðu þess. Sagðist hún telja að umbreyta þurfi nær öllu á Íslandi á næstu árum og þar felist tækifærin fyrir ungt fólk sem það vilji eiga.
Andri Snær lagði einnig áherslu á að framþróun byggist á aukinni þekkingu og tengdi það við núverandi undirstöður Íslands eins og sjávarútveginn. Mikilvægt væri að horfa á verðmætin sem væru fyrir hendi og margfalda þau. Í því fælust tækifæri fyrir ungt fólk.