Ólafur Ragnar Grímsson er sá sem flestir nefna sem óskaforseta sinn í könnun Frjálsrar verslunar en litlu munar á honum og Guðna Th. Jóhannessyni. Þátttakendur í könnuninni voru beðnir um að nefna hvaða Íslending sem er og nefndu 32% Ólaf Ragnar en 27% Guðna.
Þegar spurt var áfram og fólk beðið um að velja á milli Guðna og Ólafs Ragnars reyndist sagnfræðingurinn með meira fylgi eða 44,5% á móti 42,5% hjá Ólafi Ragnari.
Þegar spurt var um hvernig fólk kysi ef frambjóðendur væru þrír, þeir Andri Snær Magnason, Guðni og Ólafur Ragnar kom í ljós að fylgi Ólafs hélst nær óbreytt eða í 41,3%, Guðni lækkar í 33,9% og Andri Snær fær 11,6%. Rúmlega 13% sögðust óviss eða engan þessara vilja.
Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu reyndist Andri Snær með 13,4%, Guðni 39,0% og Ólafur Ragnar með 47,6%.
Þegar rýnt var í stjórnmálaskoðanir svarenda sést að Ólafur Ragnar hefur sterkan stuðning meðal ríkisstjórnarflokkanna. Um 72% stuðningsmanna Framsóknarflokks styður hann og 53% sjálfstæðismanna. Stuðningur við Guðna kemur úr röðum hinna flokkanna. Um 53% pírata segjast vilja kjósa hann, 67% samfylkingarmanna og 74% stuðningsmanna VG.
Könnunin var gerð dagana 26. apríl til 1. maí og tóku 445 manns þátt í henni. Af þeim tóku 74% afstöðu til spurningarinnar um þegar þátttakendur voru beðnir um að nefna hvern þeir vildu sem forseta ef þeir mættu nefna hvaða Íslending sem er. Munurinn á Ólafi Ragnari og Guðna var marktækur þegar fólk var beðið um að nefna nýjan forseta en ómarktækur þegar fólk var beðið um að gera upp á milli þeirra tveggja.
Guðni hefur sagt að hann ætli að tilkynna á fimmtudag hvort að hann bjóði sig fram til forseta eða ekki.
Aðrir sem voru nefndir fengu innan við 10% af þeim sem tóku afstöðu. Á eftir tvímenningunum kom Katrín Jakobsdóttir, sem hefur lýst því yfir að hún ætli ekki í forsetaframboð, með 8% tilnefninga og Andri Snær með 6%.
Frétt um könnunina á vef Frjálsrar verslunar
Fyrri frétt mbl.is: 59% vilja Ólaf Ragnar eða Guðna Th.
Uppfært 10:13 Bætt við niðurstöðum spurninga þar sem þátttakendur voru beðnir um að gera upp á milli Guðna, Ólafs og Andra Snæs.