Hver er þessi Guðni Th.?

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vænt­an­lega mun Guðni Th. Jó­hann­es­son sagn­fræðing­ur til­kynna form­lega fram­boð sitt til embætt­is for­seta Íslands á fundi sem hann hef­ur boðað til á fimmtu­dag­inn í Saln­um í Kópa­vogi. Kann­an­ir sem gerðar voru áður en ljóst þótti hvort Guðni ætlaði í fram­boð benda til þess að hann njóti næst­mests fylg­is á eft­ir nú­ver­andi for­seta, Ólafi Ragn­ari Gríms­syni, í könn­un­um þar sem þátt­tak­end­ur nefndu þann ein­stak­ling sem þeir vildu í embættið.

En hver er Guðni Th. Jó­hann­es­son? Guðni fædd­ist í Reykja­vík 26. júní árið 1968, son­ur hjón­anna Mar­grét­ar Thorlacius, kenn­ara og blaðamanns, og Jó­hann­es­ar Sæ­munds­son­ar, íþrótta­kenn­ara og íþrótta­full­trúa. Guðni á tvo bræður, þá Pat­rek, íþrótta­fræðing og fyrr­ver­andi landsliðsmann í hand­bolta, og Jó­hann­es, kerf­is­fræðing. Faðir þeirra lést árið 1983, 42 ára að aldri, úr krabba­meini og sá móðir þeirra eft­ir­leiðis að fullu um upp­eldi þeirra bræðra.

Líkt og Pat­rek­ur stundaði Guðni hand­bolta á upp­vaxt­ar­ár­un­um í Garðabæn­um en faðir þeirra var meðal ann­ars hand­boltaþjálf­ari. Föður­amma og -afi Guðna voru frá Pat­reks­firði en þaðan er nafn Pat­reks komið. Þess utan voru þeir bræður skírðir í kaþólsk­um sið en Guðni sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið 2009 að for­eldr­um þeirra hefði líkað þetta dýr­ling­a­nafn. Guðni yf­ir­gaf hins veg­ar kaþólsku kirkj­una í kjöl­far frétta af glæp­um ým­issa kaþólskra presta.

Bræðurnir Patrekur og Guðni Jóhannessynir.
Bræðurn­ir Pat­rek­ur og Guðni Jó­hann­es­syn­ir. mbl.is/​Rax / Ragn­ar Ax­els­son

Guðni stend­ur í dag utan trú­fé­laga en sagði aðspurður í sam­tali við frétta­vef­inn Hring­braut fyrr á þessu ári að hann tryði á al­mætti. Þar sagði hann enn­frem­ur: „Líður vel með mína barna­trú og mín trú­ar­játn­ing er ekki leng­ur „credo in unum deum“ held­ur mann­rétt­inda­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna: „Hver maður er bor­inn frjáls, jafn öðrum að virðingu og rétt­ind­um. Menn eru gædd­ir vits­mun­um og sam­visku og ber þeim að breyta bróður­lega hver við ann­an.““

Guðni lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1987 og BA-gráðu í sögu og stjórn­mála­fræði við Warwick-há­skóla í Englandi 1991. Næsta árið stundaði hann nám í þýsku við Há­skól­ann í Bonn í Þýskalandi en lauk ekki prófi. Á ár­un­um 1993-1994 stundaði hann nám í rúss­nesku við Há­skóla Íslands. Árið 1997 út­skrifaðist Guðni með meist­ara­gráðu í sagn­fræði frá HÍ. Tveim­ur árum síðar lauk hann MSt-gráðu í sögu frá Oxford-há­skóla á Englandi.

Guðni var þar með ekki hætt­ur námi en 2003 lauk hann doktors­námi í sagn­fræði frá Uni­versity of London. Þau Guðni og El­iza Reid, eig­in­kona hans, kynnt­ust árið 1998 þegar þau voru bæði við nám við Oxford-há­skóla, en hún er frá Kan­ada. Þau hafa verið bú­sett á Íslandi frá ár­inu 2003 og rek­ur El­iza eigið ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæki. Sjálf er El­iza er með BA-gráðu í alþjóðasam­skipt­um frá Toronto-há­skóla í Kan­ada og MSt-gráðu í nú­tíma­sögu frá Oxford-há­skóla.

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jó­hann­es­son mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Guðni og El­iza búa við Tjarn­ar­stíg á Seltjarn­ar­nesi og eiga sam­an fjög­ur börn, þrjá syni og eina dótt­ur. Börn­in eru Duncan Tind­ur (f. 2007), Don­ald Gunn­ar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Mar­grét (f. 2013). Guðni á sömu­leiðis dótt­ur­ina Rut (f. 1994) með fyrri eig­in­konu sinni, El­ínu Har­alds­dótt­ur, viðskipta­fræðingi og lista­konu. Rut stund­ar í dag nám við Há­skóla Íslands.

Guðni hef­ur meðal ann­ars starfað sem kenn­ari við Há­skóla Íslands, Há­skól­ann í Reykja­vík, Há­skól­ann á Bif­röst og Uni­versity of London. Í dag starfar hann sem dós­ent í sagn­fræði við Há­skóla Íslands. Eft­ir hann liggja mik­il rit­verk á sviði sagn­fræði, meðal ann­ars um þorska­stríðin og for­seta­embættið. Hann ritaði meðal ann­ars ævi­sögu Gunn­ars Thorodd­sens, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, og bók um embætt­istíð Kristjáns Eld­járns, fyrr­ver­andi for­seta Íslands.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert