Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, segist undrandi á að Guðni Th. Jóhannesson skuli hafa gagnrýnt aðra frambjóðendur á fyrstu dögum eigin framboðs. Með því slái hann sagnfræðilegt met. Forsetinn segist ekki hafa leitt hugann að möguleikanum á að draga framboð sitt til baka „á þessu stigi“.
Í viðtali við mbl.is í dag sagði Ólafur Ragnar að umfjöllun um meinta aflandsfélagaeign eiginkonu hans, Dorritar Moussaief, hefði engin áhrif á framboð hans til forseta. Staðreyndir málsins séu þannig að þær geti ekki haft áhrif á það.
Framboð hans hafi verið tilkomið af öðrum ástæðu sem tengdust því hvernig hugarfar hluta þjóðarinnar var í framhaldi af þeim atburðum sem urðu í byrjun apríl.
„Eins og ég útskýrði á blaðamannafundi þá var höfðað sterkt til mín að gefa kost á mér aftur og af ákveðinni skyldutilfinningu og ábyrgð gagnvart því trausti sem mér hefur verið sýnt þá varð ég við því. En ég lýsti því jafnframt yfir á blaðamannafundinum að aðalatriðið væri að þjóðin fyndi sér forseta sem hún væri sæmilega sátt við. Ef þjóðin fyndi sér annan til að vera forseti sem hún væri sæmilega sátt við þá myndi ég bara taka því fagnandi,“ segir Ólafur Ragnar.
Vilji hans og eiginkonu hans hafi staðið til þess að ljúka dvöl þeirra á Bessastöðum í sumar. Þau hafi verið byrjuð að gera ráðstafanir til þess. Til dæmis segist Ólafur Ragnar hafa verið búinn að hefja viðræður við þjóðskjalasafnið um að koma skjölum og öðrum gögnum sem tengjast tíma hans í embættinu fyrir í varðveislu þeirra og gera þau aðgengileg fyrir fræðimenn. Undirbúningur þeirra fyrstu þrjá mánuði ársins hafi miðast við brottflutning af Bessastöðum.
Þegar Ólafur Ragnar tilkynnti óvænt að hann sæktist eftir endurkjöri á blaðamannafundi á Bessastöðum 18. apríl var hann meðal annars spurður hvort að þeir frambjóðendur sem þá voru komnir fram hafi haft eitthvað um sinnaskiptin að segja.
Forsetinn neitaði því þá en segir nú að margir þeirra sem lögðu fast að honum að breyta fyrri ákvörðun um að gefa ekki kost á sér áfram hafi vísað til þess að ekki væri mikill stuðningur á meðal þjóðarinnar við þá rúmlega tíu forsetaframbjóðendur sem þá voru komnir fram.
„Það var ein af mörgum ástæðum fyrir utan margt annað. Þjóðin er auðvitað búin að læra það á undanförnum árum, bæði í Icesave-málinu og svo núna í byrjun apríl, að á örlagastundum getur það skipt miklu hver situr hér á Bessastöðum,“ segir hann.
Eftir að forsetinn tilkynnti um að hann sæktist eftir endurkjöri þvert á yfirlýsingu sína í áramótaávarpi heltust nokkrir forsetaframbjóðendur úr lestinni. Á uppstigningardag tilkynnti sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hins vegar um framboð sitt og hafa fyrstu skoðanakannanir bent til þess að hann njóti næstmests stuðnings á eftir Ólafi Ragnari og að hann gæti jafnvel velgt sitjandi forseta undir uggum.
Spurður að því hvort að aðstæður hafi breyst síðan hann tilkynnti um sinnaskipti sín segist Ólafur Ragnar ekki ætla að kveða upp dóm um það á þessu stigi.
„En sem betur hafa þessar öldur mótmæla lægt og það er svona meiri friðsemd í samfélaginu. Forsetakosningarnar hafa tekið ákveðinni þróun. Það eru staðreyndir sem blasa við,“ segir Ólafur Ragnar.
Spurður að því hvort hann hyggist nýta sér það að forsetaframbjóðandi sé kominn fram sem mælist með meira fylgi í fyrstu skoðanakönnunum en Vigdís fékk þegar hún var kjörin forseti til þess að hverfa aftur til fyrri áforma sinna um að yfirgefa Bessastaði og draga framboð sitt til baka segist Ólafur Ragnar ekki hafa leitt hugann að því á þessu stigi.
„Forsendur framboðs míns á sínum tíma voru annars vegar að bregðast af skyldurækni við þeim eindregnu óskum sem mér bárust að yfirgefa ekki skipið við þessar aðstæður og svo hins vegar það sem ávalt hefur verið mín afstaða, ef þjóðin fyndi sér annan einstakling sem hún gæti vel við unað sem forseta þá myndi ég taka því vel eins og ég sagði í yfirlýsingu minni,“ segir Ólafur Ragnar sem vill ekki svara því frekar hvort að til greina komi að draga framboð sitt til baka.
Ólafur Ragnar segir að allir forsetaframbjóðendurnir séu ágætisfólk. Sjálfur hafi hann tamið sér að tala af mikill virðingu um aðra frambjóðendur þegar hann bauð sig fyrst fram árið 1996. Þannig hafi hann ætíð nefnt þá meðframbjóðendur sína en ekki mótframbjóðendur.
Því segist forsetinn hafa verið dálítið undrandi á því að Guðni skyldi hafa byrjað á því að gagnrýna Andra Snæ Magnason og Sturlu Jónsson á fyrstu dögum framboðs síns fyrir að vera í raun í vitlausu framboði, að þeir ættu að vera í framboði til Alþingis. Guðni sagði þá að hann teldi að forsetinn eigi að standa utan fylkinga og ekki berjast fyrir ákveðnum málstað.
„Það er einhvern veginn alveg nýtt. Það má segja að Guðni slái það sagnfræðilega met með þessu að hann er fyrsti frambjóðandi til forsetakjörs í sögu lýðveldisins sem byrjar á því að ráðast á aðra frambjóðendur,“ segir forsetinn.
Þannig telur forsetinn ekki mikinn sóma í því hjá Guðna að gagnrýna Sturlu sem Ólafur Ragnar segir hafa háð „harða og hetjulega baráttu við bankakerfið“ á Íslandi og fórnað miklu sjálfur í þágu þeirrar baráttu.
„Ef hann vill nota forsetakosningarnar til að kynna hugsjónir þeirrar baráttu og glímu hans við valdaöflin á Íslandi þá er bara sjálfsagt að hann fari í forsetaframboð og það á ekkert að vera að finna að því. Ef Andri Snær vill nota forsetaembættið til að efla stuðning við þjóðgarð á Íslandi þá er það líka bara mjög fínt,“ segir Ólafur Ragnar.
Forsetaembættið geti nýst í þessum efnum og nefnir Ólafur Ragnar að hann hafi sjálfur beitt sér fyrir því að norðurslóðir yrðu stór hluti af viðfangsefnum Íslands og Vigdís Finnbogadóttir hafi beitt sér fyrir því að umhverfisvernd og landgræðsla hefðu meiri sess en þau höfðu þegar hún var fyrst kjörin.
„Forsetaframbjóðandi og forseti sem yrði kjörinn getur auðvitað stuðlað að því að þjóðin og þingið nái samstöðu um þjóðgarð á hálendinu. Ég skil bara ekki af hverju að Guðni var að gera athugasemdir við það að þessir tveir ágætu menn væru að fara í forsetaframboð með þessar hugsjónir. Mér finnst það bara sjálfsagt og eðlilegt,“ segir Ólafur Ragnar.
Viðtal mbl.is við Ólaf Ragnar um meint aflandsfélgatengsl eiginkonu hans