Athyglisvert að Davíð bjóði sig fram

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir fregnir af framboði Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns flokksins vera athyglisverðar, þetta kom fram í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni.

Bjarni segir menn vel geta ímyndað sér hvernig hans atkvæði muni falla, þar sem um samherja og fyrrum samstarfsmann sé að ræða. „Ég á hins vegar alveg von á því að menn reyni að gera þetta að flokkspólitískum kosningum þar sem að Davíð á í hlut og ég vil ekki vera sá sem setur þessa kosningabaráttu af stað með því að formaður Sjálfstæðisflokksins sé fremstur í liði stuðningsmanna.“

Segist Bjarni telja fylgi Davíðs ná langt út fyrir flokkslínur Sjálfstæðisflokksins.

Spurðu hvað honum finnist um þau rök að tími Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar sé liðinn, segist hann skilja þau rök. „En á endanum ræðst þetta af tilfinningum. Ég held að í dag sé ekki tími til að draga upp slíka dóma.“

Ólafur Ragnar og Davíð muni láta koma fram í kosningabaráttu sinni hvað þeir hafi fram að færa. „Hins vegar finnst mér athyglisvert að þeir hafa báðir með sínum hætti vísað til þess að forsetinn þurfi að vera til staðar á ólgutímum á meðan að Guðni segir að það sé ekkert að óttast.“

Bjarni kveðst vera þeirrar skoðunar að forsetaembættið hafi tekið breytingum á undanförnum árum. „Embættið hefur breyst. Það hvernig við hugsum um embættið og hverja við viljum velja þangað hefur breyst,“ segir Bjarni. Áður hafi  fólk horft meira á embættið sem sameiningartákn. „En vegna nýliðinna atburða þá hefur sá þáttur embættisins að vera til staðar og geta brugðist við orðið veigameiri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert