„Í þessu embætti eru menn einir“

Davíð Oddsson fyrir utan heimili sitt í dag.
Davíð Oddsson fyrir utan heimili sitt í dag. mbl.is/Golli

„Ég ber ábyrgð á þessu framboði sjálfur. Ég er ekki að vitna til þess að ég sé að láta undan óbærilegum þrýstingi, eitthvað þess háttar, enda held ég að það sé nú sjaldnast,“ segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og mbl.is og fyrrverandi forsætisráðherra, um framboð sitt til embættis forseta Íslands.

Davíð segir í samtali við mbl.is að hann sé að gefa kost á sér til starfa sem hann telji sig geta sinnt vel, en það sé kjósenda að meta hvort það mat sé rétt. „Ég tel að menn horfi með öðrum hætti til forsetaembættisins heldur en iðulega áður,“ segir hann. „Ég held að menn telji núorðið að því starfi sem um er að ræða þurfi einstaklingur að gegna sem hefur burði til að bregðast við þeim þáttum sem undir embættið heyra. Lætur ekki hræra í sér eða fipa sig, og gætir sanngirni, og horfir fyrst og síðast til almannahags, eins og stjórnarskráin í raun leggur línurnar að.“

Spurður að því hvort það sé persónulegur metnaður eða ákveðnar aðstæður í þjóðfélaginu sem hafa valdið því að hann stígur fram, segir hann að í sjálfu sér geti falist í því heilbrigður metnaður, en það eigi varla við í hans tilviki þar sem metnaði hans sé löngu svalað.

„En þegar ég horfi yfir sviðið þá sýnist mér að þarna geti verið að minnsta kosti pláss fyrir persónu af þessu tagi, sem að ég tel mig vera, með þá reynslu og þekkingu og eðliseinkenni sem ég bý yfir, og geti fallið að aðstæðum eins og þær eru núna,“ segir Davíð.

„Ég bendi á að þingið er afskaplega veikt og það eru tiltölulega fáir sem veita vigt eða forystu. Nú er til að mynda þegar ljóst að menn eins og Ögmundur eru að hætta; Kristján Möller og Einar Guðfinnsson. Og eftir sitja margir sem að lítt eru þekktir og hafa ekki mikla reynslu, satt best að segja. Og það hefur verið mjög áberandi í störfum þingsins, reynsluleysið og skorturinn á því að hafa burði til að sinna starfinu fullkomlega. Það er mikið vandamál. Og þess vegna get ég ekki ímyndað mér að landsmenn myndu nota tækifærið og kjósa veikan forseta. Og horfa bara til þess hvort hann geti verið huggulegur viðtals eða ekki. Ég held að landsmenn muni tæpast telja að nú sé rétti tíminn til þess.“

En hvað er veikur forseti, er hann að vísa til eigin reynslu?

„Ég tel að forseti sem ekki getur sjálfur, í krafti reynslu og þekkingar sinnar, tekið afstöðu hratt og fljótt til mála sem upp koma, sé veikur forseti. Þó hann sé kannski ágætur og sterkur maður. Við höfum auðvitað heyrt frambjóðendur segja að ef það myndu koma upp vandamál, að þá myndu þeir hringja í sérfræðinga og fræðimenn og þess háttar. Þá eru þeir bersýnilega ekki að valda hlutverkinu sjálfir, þó að það sé auðvitað gott að fá ráðgjöf. En þá virkar það aldrei. Það tekur alltaf tíma og þá er verið að vísa valdinu til manna sem enga ábyrgð bera. Þannig að það er í mínum huga skýrt að þeir sem ekki, vegna reynslu sinnar og þekkingar, geta sjálfir mest um það sagt hvernig á að bregðast við, þeir séu veikir forsetar. Geta verið sterkir, ágætir menn eða konur.“

Ólafur Ragnar sver embættiseið 1996. Fyrir aftan hann situr Davíð, …
Ólafur Ragnar sver embættiseið 1996. Fyrir aftan hann situr Davíð, þá forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Ekki að skjóta á einn né neinn

Þá vaknar sú spurning hvort ástæða sé til að ætla hvort þeir sem voru í framboði á undan honum hefðu orðið veikir forsetar; hvort verið sé að skjóta á einhvern. Davíð segir ekki svo vera.

„Ég er ekki að skjóta á einn eða neinn, ég er bara að benda á að fólk gerir þá bara samanburð og ef fólk finnur betra forsetaefni annars staðar þá er ég bara mjög sáttur með það,“ segir hann.

Spurður að því hvort framboð hans og Ólafs Ragnars Grímssonar séu vantraustsyfirlýsing á unga fólkið; næstu kynslóðir, segist Davíð ekki getað svarað fyrir Ólaf eða aðra.

„Og mitt framboð er augljóslega ekki tilkomið með þessum hætti, frekar en framboð Hillary Clinton eða Trumps eða Sanders í Bandaríkjunum. Ég hef ekki orðið var við það að þau hafi lýst því yfir að það sé þannig tilkomið í 300 milljóna manna þjóðfélagi. Þannig að ég held að það eigi nú ekki við. Það sem hefur auðvitað gerst hér á landi er að menn meta reynsluna mikils við þessar aðstæður, og sérstaklega þegar menn horfa til þess hvernig þetta gengur hjá öðrum þáttum ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins, sem forsetinn deildir hvoru tveggja samkvæmt stjórnarskránni,“ segir hann og bendir á að ólíkar aldurskröfur séu gerðar til þingmanna og forseta. „Það segir náttúrulega að stjórnarskráin bersýnilega telur að það þurfi menn með reynslu til að vera í þessu embætti, enda eru þeir þar einir. Á þingi eru margir saman og geta notið styrks af því, en í þessu embætti eru menn einir.“

Davíð segir engan vafa á því að synjunarvald forseta sé fyrir hendi, og enginn ágreiningur geti verið um að með það vald beri að fara af mikilli gætni og varúð. Hann segir það koma fyllilega til greina að setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá landsins. „Ekki myndi ég setja mig gegn slíku,“ segir hann.

Davíð segir persónulegum metnaði sínum löngu svalað.
Davíð segir persónulegum metnaði sínum löngu svalað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðrir sem veita starfið

Þegar Davíð tilkynnti um framboð sitt talaði hann m.a. um að þanþol þjóðarinnar gagnvart sitjandi forseta væri fullreynt, en hvað með þanþol þjóðarinnar gagnvart honum sjálfum?

„Ég hef nú ekki verið lengi forseti,“ svarar hann. „Ég hef ekki verið í pólitík í 11 ár, og ég hvarf úr pólitíkinni sjálfráða og eftir eigin vilja, og var ekki ýtt út eins og mjög margir lenda nú í, þegar ég var milli fimmtugs og sextugs. Og ég hvarf úr borgarstjórastóli samkvæmt eigin ákvörðun þegar ég var 43 ára. Þannig að ég hef ekki setið lengur en menn hafa viljað, heldur þvert á móti skemur. En á hinn bóginn myndi mér nú kannski finnast að ég væri að fara fullfljótt úr ritstjórastóli eftir aðeins sjö ár.“

En sér hann fyrir sér hvernig forseti hann yrði?

„Nei, það er eiginlega alltof sjálfhverft að fara að draga mynd af því. Ég tel að almenningur í landinu hafi mjög margir, og kannski flestir í þeim hópi, mjög góða mynd af mér, og sumir líta hana góðum og jákvæðum augum. Aðrir telja þá mynd vera neikvæða og það er alþekkt. Það er hópur manna sem á hverjum degi skrifar um mig níðpistla í blöðin eða á netið. Og það gerir mér ekkert til, enda held ég að slíkir aðilar séu ekki ráðandi í landinu.“

Davíð segist ekki telja að framboð hans muni höfða til einhvers ákveðins hóps og bendir á hvernig Bernie Sanders, sem er 75 ára og keppir við Hillary Clinton um útnefningu demókrata í forsetakosningunum vestanhafs, fyllir leikvanga og sali eins og rokkstjarna.

Hvað varðar framhaldið segist hann ekki kominn svo langt að íhuga hvað hann myndi gera ef kannanir sýndu að hann hefði ekki þann stuðning í þjóðfélaginu sem þarf.

„Maður horfir á allar aðstæður hverju sinni um leið og þær koma upp og tekur mið af því ef þarf, þannig að það er ekkert vandamál fyrir mig. Ég er að bjóða mig fram til starfa og það náttúrulega þýðir það að það eru aðrir sem veita starfið og ef þeir finna einhvern annan hæfan í það, sem vel má vera, þá geri ég ekki nokkra athugasemd við það. Finnst það bara ágætt.“

Davíð segist ekki hafa neinar væntingar um að Ólafur Ragnar dragi sig í hlé, nú þegar annar reyndur maður hefur stigið fram.

„Nei, ég hef engar væntingar um það. Við höfum ekki rætt saman um kosningar, reyndar ekkert rætt saman á þessu ári. Við ræddum saman einhvern tímann á síðasta ári um almenna hluti, en ég hef ekkert rætt við hann og get ekki lagt mat á það. Þetta er persónuleg og sjálfstæð ákvörðun hvers einstaklings, sem hann á við sjálfan sig.“

Davíð Oddsson og Kári Stefánsson fluttu erindi þegar áramótaútgáfa Morgunblaðsins …
Davíð Oddsson og Kári Stefánsson fluttu erindi þegar áramótaútgáfa Morgunblaðsins og New York Times fór í prentun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki sammála því að greinarbirtingin sé umdeilanleg

Talið berst að grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem birtist á tveimur opnum í Morgunblaðinu síðastliðna helgi. Þar fjallar Hannes meðal annars um þau tímamót þegar Davíð myndaði sína fyrstu ríkisstjórn 1991. Davíð segist ekki sammála þeirri staðhæfingu að birting greinarinnar geti talist umdeild.

„Það var nú þannig að af 30.000 áskrifendum Morgunblaðsins gerði enginn athugasemd. Það var hins vegar fastur sjö, átta, níu manna hópur sem talaði hver við annan, þessir föstu kappar; Egill Helgason og kó. En af 30.000 áskrifendum blaðsins gerði enginn athugasemd. Ég tek mest mark á þeim,“ segir hann.

Hann neitar því að tengsl séu á milli umfjöllunar Hannesar og forsetaframboðsins.

„Nei, ég er nú mjög framsýnn en ég var ekki búinn að ákveða með 25 ára fyrirvara að þegar það væri 25 ára afmæli þessara miklu umbreytinga sem urðu á Íslandi 1991, að þá myndi það henta fyrir kosningar 2016. Það var ekki.“

Það eru sem sagt engin tengsl þarna á milli?

„Nei, það sér hver maður. Þetta er atburður sem hvarvetna í öðrum löndum hefði verið ræddur með þessum eða svipuðum hætti. En það var svolítið athyglisvert að það skyldi enginn annar fjölmiðill telja þennan atburð merkilegan. Það segir kannski meira en þetta.“

Davíð tekur sér leyfi frá störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins og mbl.is á allra næstu dögum. Hann segist eftir að ganga frá einhverjum hlutum áður. Spurður að því hvort hann sé alfarinn nái hann kjöri, segist hann ekki kominn svo langt.

„Ég er ekki búinn að hugsa dæmið svo langt því ég tel nú að þetta geti gengið á hvern veg sem er. Þannig að ég er ekkert farinn að gera slíkar pælingar. Ég ákveð það þegar og ef væri,“ segir hann. „Ég geng ekki að neinu gefnu, en ef hins vegar einhver annar verður fyrir valinu til þessara starfa, myndi ég bara mæta til skrifta á sunnudeginum tuttugastaogsjötta.“
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                         

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka