„Það skerpast enn línurnar um valið á milli fortíðar og framtíðar,“ segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi um þá ákvörðun Davíðs Oddssonar að bjóða sig fram til forseta Íslands, en framboðið kynnti hann í þættinum Á Sprengisandi fyrr í dag.
Ákvörðun Davíðs hefur ekki áhrif á framboð Höllu, sem segir jákvætt að almenningur hafi ólíka valkosti. „Ég sagði það alltaf að ég færi fram fyrir þann málstað sem ég trúi á. Ég vil innleiða þessi gildi sem þjóðin valdi á þjóðfundi 2009, og ég var ein af þeim sem stóðu að, en þau eru heiðarleiki, réttlæti, jafnrétti og virðing. Ég mun halda áfram að tala fyrir þeim og mikilvægi þess að við innleiðum þessi grunngildi í okkar samfélag,“ segir hún. „Ég tel það alveg jafn mikilvægt ef ekki mikilvægara núna.“
Halla segir viðbrögð sín við framboðinu vera svipuð og þau þegar Ólafur Ragnar tilkynnti að hann myndi sækjast eftir endurkjöri. „Þetta er val á milli fortíðar og framtíðar, en ég trúi því að Íslendingar vilji velja framtíðina og ég vil vera valkostur í þá átt.“ Aðspurð hvaða frambjóðendur hún telji falla í hvorn flokk segir hún: „Ég held að bæði bakgrunnur, aldur og tími á sviðinu bendi til þess að Ólafur Ragnar og Davíð séu meira fortíðarval, en að velja mig, Guðna eða Andra Snæ sé meira framtíðarval.“
Þá segir Halla það afar mikilvægt árið 2016 að kona sé raunverulegur valkostur sem forseti Íslands. „Í tilefni mæðradagsins má kannski segja að tími sé kominn á að sjá móður á Bessastöðum aftur,“ segir hún og heldur áfram: „Það efast enginn um styrk móður, sem setur iðulega hagsmuni annarra ofar sínum eigin og einbeitir sér að því að sætta ólík sjónarmið með mjúkri meðferð valds. Ég býð þó fólki ekki að kjósa mig vegna þess að ég er kona, heldur vegna þess að ég hef víðtæka reynslu af því að leiða fólk saman, sætta ólík sjónarmið og stuðla að framförum á grunni góðra gilda.“
Halla segist munu halda áfram að tala fyrir því sem hún stendur fyrir; framtíðinni og breyttum áherslum í samfélaginu. „Ég hef þá trú og hef haft allan tímann að meirihluti þjóðarinnar sé líka kominn þangað,“ segir hún, en bætir við að enginn sé ómissandi. „Sá eða sú sem heldur að hann eða hún sé sá eini eða sú eina sem geti sinnt hlutverkinu er líklega sá sem ætti ekki að gera það.“