„Þessi könnun skipti nákvæmlega engu máli“

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson hafnar því að niðurstöður skoðanakönnunar MMR sem birtar voru í morgun hafi haft eitthvað með ákvörðun hans að gera, enda sýni reynslan á könnunum í forsetakosningum að „fylgi einstaklinga geti sveiflast upp eða niður með skjótum hætti og það er í sjálfu sér ekki mjög marktækt“.

Ólafur nefnir sem dæmi skoðanakönnun sem gerð var árið 1996, um tveimur mánuðum fyrir forsetakosningar, þar sem fylgi hans mældist um 70% en eftir niðurstöður kosninganna var fylgi hans um 40%. „Svo að þessi könnun skipti nákvæmlega engu máli í þessu samhengi.“

Sýnir ekki stöðuna eins og hún er í dag

Niðurstöður fyrrnefndrar könnunar MMR hafa vakið athygli, en þar mælist Guðni Th. Jóhannesson með 59,2% fylgi en Ólafur Ragnar kom þar á eftir með 25,3% fylgi. Davíð Oddsson tilkynnti framboð sitt þegar um 3/4 hluta gagnaöflunarinnar var lokið en var bætt við sem svarmöguleika um leið og hann tilkynnti framboð sitt á sunnudag. Því fengu aðeins 27% svarenda Davíð Oddsson sem svarmöguleika.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, segir niðurstöður slíkrar könnunar ekki sýna stöðuna eins og hún sé í dag, heldur frekar hvernig hún hafi verið fyrir helgi. „Þetta breytist ört, svo að það verður hreyfing á þessu eitthvað áfram,“ segir hún. Þorlákur Karlsson, rannsóknarstjóri hjá Maskínu, tekur í sama streng og segir að ekki sé óeðlilegt að birta slíkar kannanir en þeim verði að taka með fyrirvara.

Engin mæling komin fram

Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir erfitt að spá fyrir um úrslit kosninganna á þessu stigi. „Það er svolítið snúið að spá í þetta vegna þess að maður veit ekki hversu mikinn styrk nýjasti frambjóðandinn, Davíð Oddsson, hefur. Sumir búast við að hann verði geysilega öflugur en það er engin mæling komin fram, svo að það er erfitt að segja til um það,“ segir hún. „Svo getur auðvitað ýmislegt komið fram í kosninga8baráttunni“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka