Andri Snær Magnason, forsetaframbjóðandi, hefur litlar áhyggjur þótt hann hafi mælst með 8,5% fylgi í nýjustu skoðanakönnun MMR. Það er um 20 prósentustigum minna en í samskonar könnun fyrir tveimur vikum síðan.
„Þessi könnun var tekin á tímabili þar sem fólk var að sameinast um þann sem það taldi að gæti fellt Ólaf. Vikurnar þar á undan hafði ég verið með 30% í sömu könnun. Ég bara fagna þessum sviptingum. Það veit enginn hvað næsta vika ber í skauti sér,“ segir Andri Snær.
Frétt mbl.is: Guðni Th. með afgerandi forystu
„Núna fara menn meira að meta áherslur, hvaða framtíðarsýn við höfum upp á að bjóða og hvaða tengslanet innanlands og erlendis menn færa með sér. Mitt tengslanet er í nýsköpunargeiranum, listinni og umhverfismálum á heimsvísu. Það er mitt veganesti.“
Andri segir að Guðni Th. Jóhannesson, meðframbjóðandi hans, hafi skinið skært í ákveðinni atburðarás en það eigi eftir að koma í ljós hvernig hann herðist í baráttunni og hvernig honum gangi að tala um framtíðina. „Það virðist vera áherslumunur á hvort forsetaembættið eigi yfirleitt að hafa sýn á málefnin eða hvort það eigi að vera meira hlutlaust. Mitt álit er að embættið mætti skipta sér af hlutum eins og þegar alheimsfyrirbæri eins og Mývatn er að deyja,“ segir Andri Snær.
Frétt mbl.is: Mývatnsmál litið alvarlegum augum
„Síðan verður Ísland í eldlínunni hvað varðar hnattræna hlýnun á næstu árum. Það er efni sem ég hef sett mig vel inn í. Amma og afi voru stofnfélagar í Jöklarannsóknarfélaginu. Ég þekki mjög vel til þar og hef fjallað um þessi mál víða erlendis á síðustu árum. Ég held að margt eigi eftir að koma í ljós. Ég sé að sjálfstæðismenn eru ennþá hræddir við mig, þannig að ég verð að finna leið til að þeim sé ekki ógnað. Ég þarf að birtast oftar með ömmu minni,“ bætir hann við og hlær.
Samkvæmt könnun MMR mælist Andri Snær með hlutfallslega mest fylgi á meðal yngsta aldurshópsins og þeirra sem hafa lengri skólagöngu að baki. „Ég er kannski bara hár hjá þeim hópum sem ég hef talað mest við. Ég er búinn að hitta annað hvert barn á landinu og hef verið í náttúruverndarbaráttunni. Ég þarf að fara að gera smá rassíu í að tala við ákveðnar kynslóðir,“ útskýrir hann.
Hann segist skilja ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að sækjast ekki eftir endurkjöri. „Hún kemur mér ekki á óvart miðað við að hann var kominn í ákveðin öngstræti,“ segir hann og á við umræðuna um tengsl eiginkonu hans við aflandsfélög. „Þetta var ansi þung brekka fyrir hann. Ég var alltaf á því að hann ætti að láta næstu kynslóð eftir keflið."