Ólíklegt að Davíð taki fylgi af Guðna

Frambjóðendurnir Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson …
Frambjóðendurnir Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson .

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að hætta við framboð sitt í kosningum í sumar kom ekki á óvart, þar sem hann var kominn í óþægilega stöðu sem tengdist fjármálum Dorritar. Þá er ljóst að framboð Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, hafði áhrif, enda hefði Davíð gengið mjög á fylgi Ólafs. Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Grétar telur ólíklegt að Davíð muni taka mikið fylgi af Guðna Th. Jóhannessyni, en líklegra að bæði Davíð og Guðni muni taka hluta af fylgi Ólafs. Hann segir breytingar síðustu sólarhringa þó virðast hafa lítil áhrif á fylgi Andra Snæs Magnasonar rithöfundar. Segir Grétar að ef áfram haldi sem horfi með fylgi hans gætu stuðningsmenn Andra ákveðið að velja taktískt og kjósa Guðna á móti Davíð. „Það er í það minnsta ekkert flæði á milli Andra og Davíðs,“ segir Grétar.

Að sögn Grétars virðist einnig vera nokkur munur á stuðningi við frambjóðendur eftir aldri fólks. Þannig segir hann að Guðni virðist hafa stuðning frá flestum aldurshópum en líklegra sé að Davíð sæki stærstan hluta fylgis síns til kjósenda sem ekki tilheyri yngsta aldurshópnum. Þannig þekki fólk á aldrinum 18-30 ára ekkert of vel til stjórnmálamannsins Davíðs. „Þessi aldurshópur hefur aldrei sem fullorðnir einstaklingar upplifað Davíð í pólitík,“ segir hann og bætir við að fólk á þeim aldri hafi ekki haft kosningarétt síðast þegar Davíð var í framboði. Segir Grétar líklegast að Davíð muni fyrst og fremst ná til hægri í pólitíkinni og þá aðallega hjá eldri hópum.

Dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor.
Dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor. mbl.is

Í könnun MMR sem birt var í dag var Guðni með tæplega 60% fylgi. Gagnaöflunin var yfir fjóra daga og náði aðeins yfir einn dag eftir að Davíð hafði tilkynnt framboð sitt. Segir Grétar að miðað við þessa niðurstöðu sé Guðni að sækja fylgi í allar áttir. „Ef menn eru að mælast með 60% hljóta þeir að vera að sækja fylgi til hægri líka,“ segir hann.

Segir Grétar erfitt að spá fyrir um hvernig næstu kannanir muni að líta út, en hann segist spurður um mögulegt fylgi Davíðs ekki viss um að hann eigi meira inni en 30%. Bendir hann á að í fyrrnefndri könnun MMR hafi Davíð aðeins fengið 3% út á þann eina dag sem hann var á lista MMR yfir mögulega frambjóðendur. Ef það sé margfaldað með fjórum til að ná yfir allt gagnaöflunartímabilið fáist út að Davíð hafi 12% fylgi, en Grétar tekur fram að um mjög ónákvæm vísindi sé að ræða þegar margfaldað sé svona og að bíða verði eftir næstu úrtakskönnunum, sem komi væntanlega í vikunni. „Ef Davíð sækir ekki meira en 30% gæti Guðni jafnvel sótt 60%,“ segir Grétar beðinn um að lýsa nánar möguleikum frambjóðendanna út frá stöðunni í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert