Guðni með tæplega 70% fylgi

Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson.

Guðni Th. Jóhannesson er með langmest fylgi í nýrri könnunn Fréttablaðsins fyrir forsetakosningarnar eða 69%. Davíð Oddsson kemur næst á eftir með 13,7% fylgi og Andri Snær Magnason með 10,7% fylgi.

Í Fréttablaðinu kemur fram að könnunin hafi verið gerð á mánudagskvöld og hringt í 1.019 manns þar til náðist í 799 manns. Spurt var: Ef forsetakosningar færu fram á morgun, hvern myndir þú kjósa? Svarhlutfallið var 78,4% og 73,9% þeirra sem náðist í tóku afstöðu. 

Þrátt fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi dregið framboð sitt til baka á mánudaginn sögðust 3,2% aðspurðra ætla að kjósa hann. Halla Tómasdóttir var með 1% fylgi en aðrir frambjóðendur undir 1%.

Stuðningurinn við  þá Guðna, Davíð og Andra er nokkuð mismunandi milli kynja og aldurshópa. Guðni er með meiri stuðning meðal kvenna en karla eða 72,2% á móti 65,7%. Sama á við um Andra sem nýtur stuðnings 13,1% kvenna en 8,3% karla. Davíð er þó með talsvert meiri stuðning meðal karla en kvenna eða 18,8% á móti 8,6%.

Þegar aldursskipting aðspurðra er skoðuð kemur í ljós að fylgi við Guðna er nokkuð jafnt milli þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára og 50 ára og eldri. Fylgi Andra er töluvert meira á meðal þeirra sem eru 18-49 en þeirra sem eru 50 ára og eldri eða 13,8% á móti 6,6%. Davíð er hinsvegar með meira fylgi meðal 50 ára og eldri en þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára eða 17,2% á móti 11%.

Gengið verður til kosninga 25. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert