Kosningabaráttan rétt að byrja

Halla Tómasdóttir hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands.
Halla Tómasdóttir hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands. Mynd/Aðsend

Umræðan í tengslum við forsetakosningar í sumar hefur verið afgerandi þar sem karlar eru mest í umræðunni og karlar eru fengnir til að segja skoðun sína um framboðin. Fjölmiðlar hafa þannig spilað afgerandi rullu og þeir þurfa að spyrja sig hvort þeir séu að skapa frambjóðendur með umfjöllun sinni. Þetta sagði Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi, í viðtali í þættinum Sprengisandur í morgun.

Halla var spurð að því hvort hún myndi halda kosningabaráttu sinni til streitu ef niðurstaða kannana myndu áfram sýna hana með lítið fylgi, en í nýjustu könnun sem Morgunblaðið lét gera og birtist í gær er hún með undir 2% fylgi. Halla svaraði því til að kosningabaráttan væri rétt að byrja og að það væri sérstakt að sjá fólk tala jafn mikið um og vísa í kannanir þegar það liggi fyrir að vika sé enn í að framboðin liggi fyrir.

Sagði hún ábyrgð fjölmiðla nokkra í þessum efnum og benti á að það væri furðulegt að þegar hún mældist með 9% fylgi hafi hún fengið minni athygli en núna þegar hún mælist með um 1% fylgi.

Þá sagði hún að athyglin síðustu vikuna hefði verið á „þekkt vörumerki“ í framboði og það hafi alltaf áhrif á niðurstöðu kannana. Þannig væri útkoma þeirra þessa dagana ekki alveg á jafnræðisgrundvelli.

Aðspurð um ástæður þess að konur væru að fá lítið fylgi í skoðunarkönnunum í kosningunum núna sagði Halla að séð út frá leiðtogafræðum gæti verið að fólk sé að leita að einni hetju sem oftar en ekki væri karlmaður, sem ætti að bjarga þjóðinni. Sagði hún að þjóðina vantaði þó frekar kvenlegar áherslur, en bæði karlar og konur gætu komið með slíkt að borðinu. Í því fælist heiðarleiki og bætt siðferði.

Hún sagðist þó ekki ætla að kvarta yfir umfjöllunarleysi þar sem hún væri persónulega fær um að vekja athygli á sér og þeim málstað sem hún hefði fram að færa. Sagði hún það skorta að tekin yrði samræða um framtíðina.

Þannig hafi hún nýlega sest upp í bíl með eiginmanninum og tekið hringferð um landið og hitt fjölda fólks. Sagði hún að þar hafi hún sem mannauðsstjóri og mamma spurt fólk hvert það vildi fara. Fyrst þyrfti að viðurkenna sárið í þjóðinni eftir þann skort á trausti sem hefur verið og svo hvert eigi að stefna í framhaldinu.

Aðspurð um ástæðu þess að hún steig fram sagði Halla að hún teldi að hún gæti gert gagn. Hún hefði skýra sýn á það sem hún gæti lagt fram fyrir þjóðina og það væri til dæmis byggt á niðurstöðu þjóðfundarins árið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert