Íslendingar leiði mannkynið úr styrjöldinni

Mörgum gæti þótt máltækið „Always a bridesmaid, never the bride“ eiga ágætlega við um forsetaframbjóðandann Ástþór Magnússon. Hann hefur þrisvar sinnum reynt við forsetaembættið síðustu 20 árin án árangurs og núverandi kosningastjóri hans fæddist raunar einmitt árið 1996, fyrsta árið sem Ástþór bauð sig fram. En þrátt fyrir takmarkaða velgengni í fyrri kosningum og afar lítið fylgi í skoðanakönnunum síðustu vikna segist Ástþór hvergi af baki dottinn.

Ástþór segist hafa fyllst ógeði á lífi ríkra einstaklinga sem hann hafi kynnst á lífsleiðinni og hann hafði hugsað með sér að hann gæti ekki látið sitt líf snúast um peninga. Því hafi hann ákveðið að stofna samtökin Frið 2000 sem orðið hafa samofin framboðum hans, en hann vill einmitt beita sér fyrir því í embætti að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna flytjist til Íslands og að hér verði komið á fót „friðariðnaði“.

„Íslendingar hafa sérstöðu af því að við erum herlaust land,“ segir Ástþór. „Ég hef sagt það í 20 ár að við munum sjá þetta þróast meira og meira inn í styrjaldar ástand. Svo þegar ég stend á þessum tímamótum um fertugt og verð fyrir þessari hugljómun fæ ég hálfgerðar sýnir þar sem ég sé inn í framtíðina.“

Ástþór segist hafa séð að styrjöld myndi brjótast út og að mannkynið myndi biðja um frið. Hann lýsir sýnunum í þremur ljóðum í bókinni Virkjum Bessastaði en inntur eftir því hvers eðlis þessar sýnir eru segir hann þær ekki vera trúarlegs eðlis. 

„Nei, ég lít á guð eins og fjall þar sem það fer eftir því hvar þú stendur við fjallið hvernig guð lítur út. Ég trúi að þetta sé einn kraftur. Ég myndi segja að það sé mikið samasemmerki milli ástarinnar og guðlega kraftsins, hann býr í okkur öllum og við þurfum bara að draga hann fram en mannkynið hefur þrýst honum mikið niður í efnahagshyggjunni.“

Hann segist telja að Íslendingar hafi því hlutverki að gegna að leiða mannkynið út úr styrjöldinni. Hugsanlegt sé að aðilar ráðist inn í Evrópu og það sé vegna heimsvaldastefnu Bandaríkjanna sem nauðsynlegt sé að sporna við með nýrri hugmyndafræði.

„Númer eitt þá þurfum við að vera til staðar til að leiða heiminn út úr þessu, þegar þessi styrjöld verður og það gerum við best með því að laða hingað til lands stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar. “

Aðspurður um hvort hugmyndir um flutninga Sameinuðu þjóðirnar séu ekki bara skýjaborgir segir Ástþór svo ekki vera. Forseti geti kannski ekki leitt þá til leiðar einn og sjálfur en það sé hægt með stuðningi þjóðarinnar. 

„Búið að ræna kosningunum“

Eins og áður segir hefur Ástþór þrisvar sinnum áður boðið sig fram í embætti forseta Íslands, fyrst árið 1996, næst árið 2004 og svo árið 2012. Ástþór segir undirskriftir ársins þó komnar í hús fyrir nokkru.

Eftir stendur þó spurningin, í ljósi lítilla undirtekta með framboði hans í skoðanakönnunum, hvort Ástþór detti aldrei í hug að þjóðin sé kannski að segja „Takk, en nei takk“?

„Það er raunverulega búið að ræna kosningunum,“ svarar Ástþór á bragði.

„ Það er gert með misnotkun fjölmiðla, það er búið að tefla fram einstakling sem er búinn að fá fleiri klukkutíma í ríkisfjölmiðlunum t.d. í umfjöllun, sem er svo poppað upp með einhverjum könnunum, svo það er búið að mynda skoðanirnar fyrir þjóðina.“

Ástþór segir vandamálið ekki felast í sínum boðskap heldur í stýringu fjölmiðla, ekki síst RÚV.

„Þeir ætla ekki að hleypa neinum frambjóðendum inn í útsendingar nema þessum eina frambjóðanda sínum sem þeir hafa velþóknun á. Öðrum frambjóðendum verður ekki hleypt inn fyrr en þjóðin er búin að gera upp hug sinn.“

Þarna á Ástþór við Guðna Th. Jóhannesson, sem hlotið hefur skýrt meirihluta fylgi í síðustu skoðanakönnunum. Ástþór segir vísbendingu um stýringu RÚV á kosningunum vera breyttan klæðaburð Guðna, sem hafi sjaldan sést með bindi áður en hann birtist í jakkafötum á skjánum í umfjöllun um Panama-skjölin. 

„Einhver hefur smyglað þessum manni inn í þessa stöðu til að fá þessa umfjöllun og hann hefur spilað þetta svo vel að hann ætti bara að fá Edduna fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert