Guðni á pari við Davíð

Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi.
Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi.

Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, var í beinni útsendingu á Facebook-síðu Nova í dag en Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi og ritstjóri Morgunblaðsins, reið á vaðið í gær.

„Þetta gekk svakalega vel. Mér sýnist áhorfið á þá báða vera nokkurn veginn á pari að teknu tilliti til að það sé sólarhringur á milli útsendinganna. Fólk er að taka þessu mjög vel og margir að spyrja, sem við fögnum,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova.

Guðni svaraði yfir eitt hundrað spurningum almennings og fórst það vel úr hendi. Var hann m.a. spurður hvaða þremur persónum úr mannkynssögunni hann myndi bjóða í mat og einnig um alvarlegri málefni, s.s. móttöku flóttamanna á Íslandi og kvótakerfið.

Þá var Guðni spurður hvað hann myndi bjóða Davíð Oddssyni að borða, ef hann fengi hann í mat. „Ég myndi gefa honum uppáhaldsmatinn minn, pönnusteikta bleikju. Svo myndum við eiga ágætis spjall saman,“ sagði Guðni.

Fellur vel í kramið 

„Við sjáum einnig að það er fólk á öllum aldri að spyrja,“ segir Guðmundur. „Þessi nýbreytni, þar sem fólkið í landinu getur spurt þann sem er að bjóða sig fram spjörunum úr, er greinilega eitthvað sem fellur vel í kramið hjá landanum. Þetta gefur frambjóðendum jafnframt tækifæri á að kynna sig með mjög persónulegum hætti, sem okkur finnst skipta mun meira máli en áhorfstölurnar. Við veltum þeim satt að segja ekki mikið fyrir okkur,“ bætir hann við.

„Þetta mun vera í fyrsta skiptið í heiminum þar sem forsetaframbjóðendur þjóðar kynna sig með þessum hætti í beinni á Facebook.  Ísland hefur verið í fararbroddi í snjallvæðingunni og hvað stórt hlutfall af þjóðinni notar internetið, svo það að við séum fyrst á þessu sviði ætti kannski ekki að koma á óvart.“  

Á morgun verður Halla Tómasdóttir í beinni á Facebook-síðu Nova en fleiri forsendaframbjóðendur bætast svo við í næstu viku.

Hér er hægt að fylgjast með framboði Guðna á Facebook. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert