Baldur Ágústsson segir undirbúning að framboði sínu hafa gengið sæmilega. Vefsíða hans, landsmenn.is hafi verið endurbyggð en skortur á mannafla til undirskriftarsöfnunar hafi hinsvegar þvælst fyrir.
„Ég hef ekki nærri nóg af meðmælendum og því kemur að sjálfu sér að ég lýsi því yfir að ég dreg mig hér með til baka. Því miður, svona fór þetta.“
Hann segir að það hafi sjálfsagt ekki hjálpað að hann kom seint inn í kosningabaráttuna. Vandræðin við meðmælendasöfnunina stafi hinsvegar að því að tímasetninging sé slæmur fyrir ungt fólks sem taki slíkt að sér. Þegar hann fór síðast fram hafi hann styrkt íþróttafélög sem á móti tóku að sér undirskriftasöfnun.
„Núna eru allir bara mikið uppteknari. Þetta er bara annar andi í þjóðfélaginu og svo eru þau unglingarnir, börn, kennarar og nemendur, þetta er allt á kafi í prófum núna.“
Baldur er einnig ósáttur við þá reglu að hver og einn megi aðeins skrifa undir hjá einum frambjóðanda. Það hafi þá afleiðingu að skipti meðmælandi um skoðun og vilji skrifa hjá einhverjum öðrum en þeim sem upprunalega var skrifað hjá geti hann það ekki því þá ógildast þær báðar.
„Ég sé ekki alveg lógíkina á bak við þetta, þegar ég segi að ég dragi mig til baka þá geri ég það með þeim fyrirvara að þetta standist lög.“
Baldur segir mikilvægast nú að Ísland fái góðan forseta. Þjóðin þurfi góðan forseta sem skilji hana og þekki, ekki stjórnmálamann sem hafi „flotið úr skóla inn í stjórnmálaflokk og áfram upp“ heldur mann sem þekki sorg, sult og fátækt.
„Ég skora á menn að skoða hvern frambjóðanda vel og kjósa eitthvað sem er okkur til heilla, því þessir menn eru í vinnu hjá okkur.“