„Skemmtilegasti þáttur kosningabaráttunnar“

Guðni í tónlistarskólanum á Akranesi í dag.
Guðni í tónlistarskólanum á Akranesi í dag. Mynd/Facebook

„Mér fannst hljóðið í fólki mjög gott. Ég kynnti mína sýn á embætti forseta íslands og hvernig ég telji að því skuli best gegnt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi en hann hélt framboðsfund í tónlistarskólanum á Akranesi í dag.

„Ég rakti aðeins sögu embættisins og síðan tóku við samræður við fólkið í salnum. Það var margt fróðlegt sem þar kom fram og margt sem fólk vildi vita meira um. Gaman og alvara í bland og ég held að allir hafi gengið glaðir af fundi,“ segir Guðni.

Aðspurður hvað hafi brunnið á fólki segir Guðni það hafa verið umræðan um hin pólitísku völd forsetans. „Fólk hafði áhuga á að vita um stöðu forseta við stjórnarmyndanir. Við tókum ágætisumfjöllun um það og um þjóðaratkvæðagreiðslur og málskotsrétt forseta. Fólk virðist vilja fá greinargóð svör við spurningum um hin pólitísku völd forseta. Svo var náttúrulega slegið á létta strengi og ég spurður hvort ég styðji ekki örugglega Skagann í fótbolta. Ég reyndi auðvitað bara að svara á diplómatískan hátt, stuðningsmaður Stjörnunnar sem ég er.“

Hann segist ánægður með mætinguna á fundinn en að honum loknum heimsótti hann Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi og Kóramót sem haldið var í bænum í dag. „Þar voru allir í miklu stuði og sungu hver í kapp við annan,“ segir Guðni. Deginum lauk hann svo á tónleikum Hinsegin kórsins í Bústaðakirkju í kvöld.

Á morgun er ferð Guðna svo heitið austur á land. „Ég verð með fund á Egilsstöðum á morgun og svo mun ég sækja málþing um Lúðvík Jósepsson, þá miklu landhelgishetju, á Neskaupsstað. Þetta er bara líf og fjör og gaman að taka þátt í þessu. Mér finnst þetta einna skemmtilegasti hluti kosningabaráttunnar og ég held að meðframbjóðendur mínir séu sama sinnis um það,“ segir Guðni að lokum.

Áhorfendur á fundinum í dag.
Áhorfendur á fundinum í dag. Mynd/Facebook
Guðni heimsótti Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi í dag.
Guðni heimsótti Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi í dag. Mynd/Facebook
Guðni og Eliza.
Guðni og Eliza. Mynd/Facebook
Eliza ræðir við fundargesti.
Eliza ræðir við fundargesti. Mynd/Facebook
Mynd/Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert