Stundum pirruð en annars fullkomin

Elísabet Jökulsdóttir, forsetaframbjóðandi.
Elísabet Jökulsdóttir, forsetaframbjóðandi. mbl.is/Þórður

Forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir segir það draum sinn að gera Bessastaði að barna- og unglingamiðstöð. Þetta kom meðal annars fram þegar hún svaraði spurningum áhorfenda í beinni útsendingu á facebooksíðu Nova í dag.

Fyr­ir hafa Andri Snær Magnason, Hildur Þórðardóttir, Halla Tóm­as­dótt­ir, Guðni Th. Jó­hann­es­son og Davíð Odds­son svarað spurn­ing­um face­booknot­enda í beinni á veg­um fyr­ir­tæk­is­ins og hef­ur uppá­tækið mælst vel fyr­ir.

Fjölmargar spurningar bárust. Sagði Elísabet m.a. í svörum sínum að helsta vandamál þjóðarinnar væri alkóhólismi og meðvirkni. Aðspurð hvaða bíl forsetinn ætti að kaupa við endurnýjun á bílakosti sagði hún besta kostinn vera hestvagn. Þá sagði hún að Ísland ætti að vera stóriðjulaust land og auðlindir ættu að vera þjóðareign en ekki í eigu fárra útvaldra.

Barbídúkka var með í för

Elísabet sat þó ekki ein fyrir svörum, en hún var með barbídúkku með sér, sem hún fékk til að svara nokkrum spurningum fyrir sig. Þegar hún var spurð hver tilgangur framboðsins væri dró hún dúkkuna fram og sagði: „Ég bara skelf. Ég verð að fá meiri athygli og ég er að keyra Elísabetu áfram í þessu framboði.“ Síðar sagði hún að dúkkan væri með í för til að aðstoða hana, því það væri „svo mikið mál að vera í forsetaframboði“. Dúkkan barst aftur í tal þegar Elísabet var spurð hvað hún hefði fram yfir Guðna Th. og Davíð. „Ég hef dúkkuna,“ svaraði hún.

Þegar Elísabet var spurð af hverju kjósendur ættu að velja hana stóð ekki á svari. „Því ég er svo frábær og uppfull af kærleika, visku og eldmóði. Ég get stundum verið svolítið pirruð en annars er ég fullkomin.“

Jafnrétti grunnurinn að góðu samfélagi

Þá sagði hún að ástæða framboðsins væri sú að hún hefði fengið það á tilfinninguna að hún ætti að fara í framboð og svo hefði hún viljað finna leiðtogann í sér. „Ég hef verið mjög hreykin af sjálfri mér og ég bara hvet allar konur til að bjóða sig fram og til að kjósa mig. Konur fara halloka núna eins og er þannig að ég vissi að ég gæti haft eitthvað fram að færa og það snýst ekki um að hafa skoðanir á málefnum heldur að hafa áhuga á fólki. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á fólki og ég held að það sé grunnurinn að ýmsu og grunnurinn að þessum málefnum,“ sagði hún.

Elísabet sagðist vera mikill jafnréttissinni og sagði jafnrétti vera grunninn að góðu samfélagi. „Ég er með geðsjúkdóm og er stundum þunglynd og þarf að takast á við það og maður fer til sálfræðinga og vinnur í sjálfum sér, en svo uppgötvaði ég það að jöfnuður og jafnrétti laga geðheilsu okkar miklu, miklu betur en allir sálfræðitímar,“ sagði hún. „Geðsjúkdómar eru ekki bara arfgengir heldur líka pólitískir. Fólk veikist þegar pólitísk réttindi eru skert og þegar mannréttindi eru skert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert