Forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon sat fyrir svörum í beinni útsendingu hjá Nova í dag.
Ástþór ræddi í löngu máli um Íraksstríðið, sem hann kallaði stríðsglæpi á sínum tíma, og skaut föstum skotum á Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, sem einnig er í framboði til forseta.
„Auðvitað blöskrar mér algjörlega að maðurinn sem ætti raunverulega heima í fangelsi fyrir þátt sinn í stríðsglæpunum sé í forsetaframboði á Íslandi. Það er verið að loka hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og reyna að finna því nýtt hlutverk.
Hvers vegna gerum við það ekki að svona landráðasafni og þar getum við tekið fyrsta landráðamanninn, þennan sem setti Ísland á stuðning hinna viljugu þjóða og boðið honum að gista frekar í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, sem svona minnismerki um þetta, frekar en að hann sé að sækjast eftir því að flytja á Bessastaði.
Karlkyns íbúi á Stúdentagörðum sendi inn spurningu um hvernig Ástþór hefði komist inn á garðana sem eru læstir, þar sem hann hafði bankað upp á hjá viðkomandi að biðja um undirskrift.
„Ég hefði nú frekar viljað banka á herbergishurðina hjá einhverri fallegri konu,“ sagði Ástþór og útskýrði síðan að honum hefði verið boðið inn af öðrum nemanda á stúdentagörðunum. Sagðist hann hafa safnað mörgum undirskriftum bæði hjá nemendum HÍ, HR og HA.
Þá var Ástþór einnig spurður að því af hverju hann stæði við framboð sitt í ljósi þess að hann mælist undir einu prósenti. Svarið var einfalt.
„Kosningarnar eru ekki búnar.“
Uppfært 00:04
Upprunalega stóð í fréttinni að Ástþór hefði komið á Stúdentagarðana um miðja nótt. Það mun ekki rétt en sú villa helgast af því að spyrill Nova las spurninguna rangt upp úr athugasemdunum við útsendinguna. Þetta hefur nú verið leiðrétt.