Vill stinga Davíð í Hegningarhúsið

Ástþór í beinni útsendingu Nova.
Ástþór í beinni útsendingu Nova. Skjáskot/ Facebook Nova

Forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon sat fyrir svörum í beinni útsendingu hjá Nova í dag.

Ástþór ræddi í löngu máli um Íraksstríðið, sem hann kallaði stríðsglæpi á sínum tíma, og skaut föstum skotum á Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, sem einnig er í framboði til forseta. 

„Auðvitað blöskrar mér algjörlega að maðurinn sem ætti raunverulega heima í fangelsi fyrir þátt sinn í stríðsglæpunum sé í forsetaframboði á Íslandi. Það er verið að loka hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og reyna að finna því nýtt hlutverk.

Hvers vegna gerum við það ekki að svona landráðasafni og þar getum við tekið fyrsta landráðamanninn, þennan sem setti Ísland á stuðning hinna viljugu þjóða og boðið honum að gista frekar í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, sem svona minnismerki um þetta, frekar en að hann sé að sækjast eftir því að flytja á Bessastaði.

Hefði viljað banka hjá fallegri konu

Karlkyns íbúi á Stúdentagörðum sendi inn spurningu um hvernig Ástþór hefði komist inn á garðana sem eru læstir, þar sem hann hafði bankað upp á hjá viðkomandi að biðja um undirskrift.

„Ég hefði nú frekar viljað banka á herbergishurðina hjá einhverri fallegri konu,“ sagði Ástþór og útskýrði síðan að honum hefði verið boðið inn af öðrum nemanda á stúdentagörðunum. Sagðist hann hafa safnað mörgum undirskriftum bæði hjá nemendum HÍ, HR og HA. 

Þá var Ástþór einnig spurður að því af hverju hann stæði við framboð sitt í ljósi þess að hann mælist undir einu prósenti. Svarið var einfalt.

„Kosningarnar eru ekki búnar.“

Uppfært 00:04
Upprunalega stóð í fréttinni að Ástþór hefði komið á Stúdentagarðana um miðja nótt. Það mun ekki rétt en sú villa helgast af því að spyrill Nova las spurninguna rangt upp úr athugasemdunum við útsendinguna. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert