Hart tekist á í forsetakappræðum

Davíð sótti hart að Guðna í sjónvarpsþættinum Eyjunni.
Davíð sótti hart að Guðna í sjónvarpsþættinum Eyjunni.

Davíð Odds­son gerði nokkra hríð að Guðna Th. Jó­hann­es­syni í sjón­varpsþætt­in­um Eyj­unni, í stjórn Björns Inga Hrafns­son­ar, á Stöð 2 síðdeg­is. Sagði hann Guðna hafa reynt að hlaup­ast und­an orðum sín­um hvað varðar ESB, Ices­a­ve-samn­ing­ana og stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar.

Þeir fjór­ir fram­bjóðend­ur sem hafa mælst með mest fylgi þeirra sem bjóða sig fram til embætt­is for­seta Íslands voru gest­ir í þætt­in­um, en Andri Snær Magna­son og Halla Tóm­as­dótt­ir mætt­ust í fyrri hluta þátt­ar­ins og Guðni Th. Jó­hann­es­son og Davíð Odds­son mætt­ust í síðari hlut­an­um.

Sagði Guðna hlaup­ast und­an orðum sín­um

„Al­menn­ing­ur veit ekk­ert um Guðna eða fyr­ir hvað hann stend­ur og raun­ar hef­ur hann verið að hlaupa frá því á harðak­ani en ég veit ekki af hverju,“ sagði Davíð og bætti við að síðasta kjör­tíma­bil hafi verið illa nýtt, en þá hafi meiri­hluti þings­ins viljað ganga inn í ESB „eins og Guðni,“ greiða Ices­a­ve-samn­ing­ana „eins og Guðni,“ og breyta stjórn­ar­skránni „eins og Guðni“. Sagði hann að Guðni yrði að vera maður til að standa við það sem hann hafi sagt en ekki hlaupa frá því. „Ég hleyp aldrei frá neinu, og ég hleyp svo sem aldrei,“ sagði hann svo.

Guðni sagðist ekki hafa reynt að hlaupa und­an orðum sín­um en það mætti ekki taka orð hans úr sam­hengi þegar verið væri að ræða þessi mál. Menn ættu að vera sann­gjarn­ir og heiðarleg­ir. Þá sagði hann að for­seti ætti að standa utan flokka, vera sam­ein­ing­ar­tákn og hafa framtíðar­sýn. Því skipti per­sónu­leg skoðun hans á ákveðnum mál­um ekki máli í því sam­hengi. „For­seti verður að vera for­seti þeirra sem eru með og þeirra sem eru á móti ESB,“ sagði hann. „Þjóðin á að eiga fyrsta og síðasta orðið. For­seti Íslands mót­ar ekki Evr­ópu­stefnu á Íslandi held­ur kjörn­ir full­trú­ar.“

Þá sagði Guðni að for­seti Íslands þyrfti að vera trúr sann­fær­ingu sinni og tala máli þjóðar­inn­ar. Davíð gagn­rýndi hann þá og sagði að það orkaði tví­mæl­is hjá hon­um að segja að for­seti ætti ekki að taka af­stöðu í mál­um en ætti samt að hafa sann­fær­ingu. „Til að hafa sann­fær­ingu þarf fólk að taka af­stöðu. Fólk finn­ur að það er hol­ur hljóm­ur ef þú hef­ur ekki sann­fær­ingu.“

„Davíð, hef­urðu enga sóma­kennd?“

Davíð gagn­rýndi Guðna harðlega fyr­ir að hafa á sín­um tíma talað fyr­ir því að samþykkja hefði átt svo­kallaðan Svavars­samn­ing, sem Davíð sagði „verst­an allra samn­ing­anna“ í Ices­a­ve-deil­unni. Guðni benti þá á að hann hafi líkt samn­ingn­um við Versala­samn­ing­inn þar sem Íslend­ing­ar hefðu ekki getað staðið við hann. „Varstu virki­lega að mæla með því að við gerðum samn­ing sem við mynd­um ekki standa við?“ sagði Davíð þá.

Þá sagði Davíð Guðna einnig hlaupa frá því að hafa sagt eft­ir hrunið að gera ætti „gagn­ger­ar, nauðsyn­leg­ar og rót­tæk­ar“ breyt­ing­ar á stjórn­ar­skránni. „Davíð, hef­urðu enga sóma­kennd?“ sagði Guðni þá og bætti við að hann hafi aldrei haldið því fram að koll­varpa ætti stjórn­ar­skránni. Það sé ekki hlut­verk for­seta að breyta stjórn­ar­skránni, held­ur þing­manna sem kosn­ir eru af þjóðinni. Hann hafi þó talað fyr­ir því að ákvæði yrði sett í stjórn­ar­skrá um að til­tek­inn fjöldi kjós­enda geti kraf­ist þjóðar­at­kvæðagreiðslu, í stað þess að at­beina for­seta þurfi.

Davíð nefndi svo land­helg­is­mál­in til sög­unn­ar og um­mæli sem hann sagði Guðna hafa haft uppi um þau á þá vegu að Íslend­ing­ar hafi ekki unnið sig­ur í land­helg­is­mál­un­um. Nokk­ur umræða skapaðist um þetta og voru fram­bjóðend­urn­ir ekki sam­mála um hvað Guðni hefði sagt og hvernig ætti að skilja orð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert