Túlki ummælin ekki bókstaflega

Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi sagðist í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í gærkvöldi aldrei nokkurn tímann hafa sagt að fávís almenningur gæti komið sér upp röngum sameiginlegum minningum þegar kæmi að Þorskastríðunum.

Hann var þá spurður út í ummæli sem hann lét falla í fyrirlestri sem hann hélt í Háskólanum á Bifröst fyrir þremur árum:

„Jess, Íslandi allt. Og spurningin vaknar: Er fávís lýðurinn aftur að pródúsera rangar sameiginlegar minningar?“

Hér að ofan má sjá myndband þar sem ummæli Guðna úr fyrirlestrinum eru rifjuð upp, sem og brot úr þættinum í gær, þar sem hann þvertók fyrir að hafa látið ummælin falla. Hélt hann því fram að ummælin hefðu verið ranglega höfð eftir honum. 

Guðni og Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi og ritstjóri Morgunblaðsins, tókust á í seinni hluta þáttarins í gær, en þau Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir mættust í fyrri hlutanum.

Frétt mbl.is: Hart tekist á í forsetakappræðum

Forsetaframbjóðendurnir Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Forsetaframbjóðendurnir Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson.

Þáttastjórnandinn, Björn Ingi Hrafnsson, spurði Guðna sérstaklega út í ummælin um Þorskastríðið og vísaði til fyrirlestrar sem Guðni hélt í Háskólanum á Bifröst árið 2013. Þar ræddi hann meðal annars óformlega könnun sem hann gerði með nemendum sínum í sagnfræði við Háskóla Íslands, en hann bað þá um að leita eftir minningum fólks af Þorskastríðunum. Niðurstaðan hafi verið sú að hvað varðar sameiginlegar minningar, þá hafi flestir talið að Íslendingar hafi sigrað mun stærra land í deilu sem skipti okkur máli. Í kjölfarið segir Guðni:

„Jess, Íslandi allt. Og spurningin vaknar: Er fávís lýðurinn aftur að pródúsera rangar sameiginlegar minningar? Og það kemur enn til kasta okkar sagnfræðinga, því að það er ekki leyna að í okkar hópi eru þeir til, og ég er kannski þar framarlega þó ég segi sjálfur frá, sem hafa lýst efasemdum um þessa sýn, en vissulega aðrir tekið í sama streng, eins og Guðmundur J. Gunnarsson og Valur Ingimundarson og fleiri.“

Hér má hlýða á fyrirlesturinn en Guðni ræðir könnunina í kringum 10. mínútu:

Í samtali við Vísi fyrr í dag hvatti Guðni fólk til þess að hlýða á fyrirlesturinn og skoða ummælin í samhengi. Það væri langt seilst að bera það upp á hann að honum þyki Íslendingar vera fávís lýður.

Hann segist hafa verið að tala um að fræðimönnum hætti stundum til þess að kvarta undan því að fólk taki ekki undir með þeim. Notaði hann þá þessa lýsingu. Það geti verið erfitt fyrir þá sem stunda fræðirannsóknir að kynna sínar niðurstöður fyrir almenningi þannig að honum líki.

„Það er alltaf smá bil þarna á milli en ég trúi ekki að fólk taki svona orðalagi bókstaflega. Ég hvet fólk til að hlusta á þennan fyrirlestur og lesa allt sem ég hef skrifað og þá sér  fólk að það er ekki fótur fyrir því að mér finnist Íslendingar vera fávís lýður. Mér finnst ansi magnað að þetta sé orðið aðalatriði,“ sagði Guðni.

Aðeins hafi verið um myndlíkingu að ræða. Sjálfur hafi hann líka talað um fræðimenn í fílabeinsturni.

Davíð gerði nokkra hríð að Guðna í þættinum og sagði hann hafa reynt að hlaupast undan orðum sínum. Guðni ítrekaði hins vegar margoft að ekki mætti taka orð hans úr samhengi.  Menn ættu að vera sann­gjarn­ir og heiðarleg­ir.

Sjónvarpsþátturinn Eyjan á Stöð 2 í gær

Attachment: "gudni david þorskastrid" nr. 9891

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert