Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi og dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur um þorskastríðin á málþingi í HÍ í hádeginu.
Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Er þorskastríðunum lokið? Valdar minningar um liðin átök“.
Málþingið fjallar um landhelgismál og þorskastríð í tilefni þess að rétt 40 ár eru liðin síðan lokasigur vannst í baráttu Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar.
Þar flytur dr. Colin Davis, prófessor í sagnfræði við háskólann í Alabama í Bandaríkjunum, einnig erindi, ásamt Flosa Þorgeirssyni, meistaranema í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Málþingið stendur yfir frá klukkan 12 til 14 í Öskju.
Því verður streymt beint í gegnum Facebook Live á Facebook-síðu framboðs Guðna.
Guðni hefur undanfarið verið spurður út í ummæli sem hann lét falla í tengslum við þorskastríðin í fyrirlestri sem hann hélt árið 2013. Hefur hann sagt að orð sín um „fávísan lýð“ hafi verið tekin úr samhengi og að um myndlíkingu hafi verið að ræða.
Frétt mbl.is: Túlki ummælin ekki bókstaflega