Ekki ofurseldur Akureyringnum

Guðni Th. Jóhannesson tekur fálega í þær hugmyndir forsetaframbjóðandanna Ástþórs Magnússonar og Hildar Þórðardóttur að Ríkisútvarpið og „annarleg öfl“ standi að baki framboði hans.

„Ég kann ekki að útskýra það betur þegar ég segi það hreinast satt að RÚV hafi ekkert með mitt framboð að gera eða minn klæðnað og breytingu frá því að vera fræðimaður og núna forsetaefni,“ segir Guðni. „Ragnar Sverrisson á Akureyri gaf mér þetta bindi en það þýðir ekkert að ég sé ofurseldur honum.“

Guðni segist vissulega hafa þurft að gera breytingar í eigin fari til að koma til móts við nýtt hlutverk. Hinsvegar eigi heimur fræðimannsins ýmislegt sameiginlegt með heimi forsetaframbjóðandans. Í báðum hlutverkum gagnist að geta komið því vel frá því sem maður vilji að fólk heyri og eins krefjist þau bæði þess að maður sé heiðarlegur, gagnrýninn í hugsun og hreinskilinn.  

Hann segir í raun meira sameina þessa tvo heima en skilji að. Þó sé ákveðinn blæbrigðamunur. 

„Það er til dæmis gaman að velta því fyrir sér að það sem ég hef skrifað um í mínum fræðum, t.d. um þorskastríð og landhelgismál, hvernig sumir vilja nota það og jafnvel misnota í forsetakjörinu. Ég kveinka mér ekkert undan því en það er fróðlegt að sjá hvernig þessir heimar mætast og hvað er hægt að gera við það sem heitir vönduð fræðimennska og hefur verið tekið sem slíkri. Í forsetabaráttu eða kosningabaráttu þá færist bara harka í leikinn.“

Segist ekki skoðanalaus

Guðni segist lítið velta sér upp úr miklu fylgi sínu, en hann hefur mikið forskot á aðra frambjóðendur miðað við skoðanakannanir. Hann segir það ekki stýra því hvernig hann hagi framboði sínu.

„Menn segja auðvitað í íþróttum að það sé ekki nóg að vera mörgum mörkum yfir í hálfleik, það eru lokaúrslitin sem telja,“ segir Guðni. 

„Það á enginn fylgi kjósenda og það kemur bara í ljós á kjördag hvernig fer. En óneitanlega, ætti maður að velja, þá vill maður þó frekar vera yfir í hálfleik heldur en undir þannig að ég kvarta ekki undan stuðningnum en ég geri mér grein fyrir því að við verðum að vera vakandi, við verðum að vera auðmjúk áfram, bera virðingu fyrir fólki. Þannig höldum við áfram og svo sjáum við bara hvað setur.“

Ein helsta gagnrýnin sem komið hefur fram á Guðna er sú að hann skorti stefnu, að erfitt sé að greina hvernig hann muni beita sér í embætti í ljósi þess að hann er var um skoðanir sínar. Guðni hafnar því þó að hann sé stefnulaus.

„Mín stefna er sú að forseti Íslands eigi einmitt að standa utan fylkinga, og standa utan flokka. Það þýðir alls ekki að hann eigi að vera skoðanalaus en að hann eigi að vera nokkurs konar málssvari hinnar málefnalegu umræðu. Það er hlutverk forsetans að tryggja að ólík sjónarmið heyrist, að allir fái að segja sína skoðun og að fólkið í landinu finni að forsetinn er ekki í einu liði á móti öðrum.“

Guðni segir það ekki þýða að hann hafi ekki sterka skoðun á helstu málum samtímans. Hann vilji að menntakerfið og heilbrigðisþjónustunan sé bætt, stuðlað sé að umhverfisvernd og -vitund, hugað sé að stjórnarskrárbreytingum en þó svo að þessi mál brenni honum á hjarta vilji hann ekki að fólkið í landinu upplifi að hann sé búinn að marka sér ákveðna stefnu. Hann taki afstöðu í ESB aðildarmálum en hún sé sú að þar eigi þjóðin að taka ákvörðunina.

Frámunalega feiminn unglingur

Nái Guðni kjöri, vonast hann til að við lok kjörtímabilsins sé samfélagið örlítið betra en það er núna. Hann segir forseta ekki geta breytt neinu einn síns liðs en að hann geti lagt góðum málum lið. Eigi hann að velja eitthvað eitt málefni væri það að þeir sem minna mega sín, hópar og einstaklingar, séu betur settir.

„Ég var frámunalega feiminn sem unglingur og hef hugsað með mér að það gæti verið gaman að stökkva aftur í tímann og segja við þennan feimna ungling sem var svona dálítið umkomulaus: „Heyrðu engar áhyggjur, þetta verður allt í lagi. Þú ert í forsetaframboði.“

Ég get það ekki, en kannski get ég klappað á öxlina á einhverjum öðrum, einhverjum unglingi hérna sem er hikandi, á sér drauma en vantar þetta örlitla klapp á öxlina. Geti ég hjálpað þar til þá hef ég kannski komið einhverju góðu til leiðar eftir fjögur ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert