Sturla Jónsson á að baki langa stjórnmálabaráttu en þó ekki hefðbundinn stjórnmálaferil. Hann lét fyrst að sér kveða í tengslum við mótmæli vörubílstjóra í Ártúnsbrekku árið 2008 þar sem háum olíusköttum og reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra var mótmælt. Sama ár stofnaði hann Framfaraflokkinn en nafni þess flokks var breytt árið 2013.
Þá hafði Sturla reynt án árangurs að fá einstaklingsframboð sitt viðurkennt og brá hann því á það ráð að nefna einfaldlega flokkinn eftir sjálfum sér. Hann bauð sig því fram í Reykjavíkurkjördæmi suður til Alþingis en hlaut ekki það fylgi sem til þurfti.
Nú hefur hann sett markið hærra, á sjálft forsetaembættið.
„Mér datt náttúrulega ekki hug að bjóða mig fram fyrr en ég væri búinn að safna undirskriftum þannig að ég stóð bara upp úr sófanum heima hjá mér og fór að safna þeim til að athuga hvort það væri einhver grundvöllur fyrir að bjóða sig fram og það gekk bara ljómandi vel,“ segir Sturla sem kveður tæplega 3.000 manns hafa stutt framboðið með undirskriftum sínum.
Sturla segir að hann vilji að farið sé eftir „orðanna hljóðan“ í stjórnarskránni og leggja niður hefðir, venjur og óskráðar reglur sem hann segir farið eftir. T.d. vill hann að forseti skipi ráðherra ríkisstjórnarinnar.
„Það hafa nokkrir nefnt það við mig að ég eigi kannski að fara á þingið eða reyna að komast þangað inn en það vill svo skemmtilega til að ef maður er á þinginu þarf maður að eiga við 63 þingmenn til þess að koma málunum sínum áfram en sem forseti þurfa 63 þingmenn að sannfæra mig um að vísa málunum ekki til þjóðarinnar,“ segir Sturla.
„Ég tel mér miklu betur varið á Bessastöðum en að standa í þvarginu á þingi.“
Sturla segir það þó ekki vera valdið sem heilli sig við embættið. Málið snúist fremur um réttlæti og að almenningur eigi sér talsmann á Bessastöðum enda hafi fjármálaöflin átt sér talsmenn allsstaðar undanfarin ár. Hann telur forsetaembættið góðan stað til að tryggja betra líf fyrir fólkið í landinu.
Skoðanakannanir Útvarps Sögu hafa komið nokkuð betur út fyrir Sturlu en skoðanakannanir annarra aðila, s.s. Félagsvísindastofnunnar, MMR og Gallup. Sturla segist ekki endilega tala sérstaklega fyrir hlustendur Sögu sem hóp en að vissulega séu margir þeirra hliðhollir honum. Það glaðnar hins vegar yfir honum þegar skoðanakannanir ber á góma.
„Það er alveg frábært að þú kemur inn á þetta skal ég segja þér. Vinur minn var nefnilega beðinn um að taka þátt í [skoðanakönnun á vegum] Gallup. Svo er hann búinn að kjósa og þá er hann spurður af hverju kýstu þennan og treystirðu honum og er hann traustverðugur og svo framvegis. Svo er hann búinn að svara þessu öllu, þá poppar upp önnur spurning, og hún er: „Af hverju kýstu ekki Davíð Oddsson?“.“
Sturla segist reglulega fá ábendingar um að illa gangi að kjósa hann í skoðanakönnunum á vegum Reykjavík síðdegis. Hann segist þó ekki telja að beinlínis sé verið að vinna gegn honum.
„Nei það er náttúrulega samsæriskenning. En hins vegar eru málefnin sem ég er að koma með mjög sterk og þau eiga ekki alltaf upp á pallborðið hjá valdhöfum. Eins og einn vinur minn sagði: „Þú verður að átta þig á því Sturla, það er engin eftirspurn eftir sannleikanum.“ En það er svo sem ekki að angra mig, við bara höldum áfram með sannleikann og hann hlýtur að koma upp á endanum.“
Hvað störf forseta utan landssteinanna varðar segist Sturla fyrst og fremst vilja einbeita sér að því að „laga til heima hjá sér“, verði hann kjörinn forseti. Fyrst eftir að það hefur tekist geti hann látið á sér kveða á alþjóðavettvangi, þar sem þá gæti hann bent stoltur heim til Íslands.
Hvað flóttafólk varðar segist hann vilja sinna því sem náð hefur til landsins nú þegar.
„Ef við þykjumst geta bjargað öllu því sem er utan landssteinanna en ekki gert neitt í því sem er hérna heima þá held ég að það sé eitthvað ekki rétt í málflutningnum,“ segir Sturla. „Ef maður deyr hérna hjá okkur þá getum við ekki sagt „Komiði – þó við getum ekki sinnt eigin samlanda sem deyr hérna niðri á Austurvelli,“ því hann deyr alveg jafnt og flóttamaðurinn.“
Hvort leggja eigi að jöfnu þá sem berjast við alvarlega, langvarandi fíknisjúkdóma og fullfrískt fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til samfélagsins segir Sturla einfaldlega að íslenskt samfélag eigi að geta sinnt sjúkum, en geti það ekki.
„Það er ekki fjárskortur heldur hvernig auðinum er misskipt. Við erum með hérna 10 einstaklinga, eða er það 100 manns, sem fá 33.000 milljónir á ári í vasana sína. Við getum hjálpað okkar eigin fólki og þá ennþá meira fólki sem á um sárt að binda eins og þú talar um ef við fáum þennan auð inn í samfélagið okkar. En það er ekki gert og það er ekkert talað um það.“