Guðni Th. Jóhannesson er með 51% fylgi samkvæmt nýrri könnun Gallup sem var gerð dagana 8. til 15. júní. Hann tapar tæplega 6% fylgi frá fyrri könnun Gallup þar sem hann var með 56,7% fylgi. Davíð Oddsson mælist með 16,4% fylgi, Andri Snær Magnason 15,5% og Halla Tómasdóttir 12,5%. Ekki er marktækur munur á fylgi Andra og Davíðs þar sem vikmörk eru í báðum tilvikum 1,9%. Greint var frá könnuninni í kvöldfréttum RÚV.
Þá er Sturla Jónsson með 2,7% fylgi, Elísabet Jökulsdóttir með 1,1% fylgi, Ástþór Magnússon með 0,5% fylgi, Guðrún Margrét Pálsdóttir með 0,3% fylgi og 0,2% styðja Hildi Þórðardóttur.
Í fréttum RÚV kemur fram að úrtak könnunarinnar var 2.819 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 57,1% en 1.610 svöruðu könnuninni. Þar af var 3,1% sem ætlaði ýmist ekki að kjósa eða skila auðu. Um 7% þeirra sem svöruðu vildu ekki taka afstöðu.
Seinasta könnun Gallup var framkvæmd dagana 26. maí til 3. júní en hlutfallslega tapar Davíð mestu fylgi milli kannana en hann mældist með tæplega 4% minna fylgi. Bæði Andri og Halla bæta við sig 5% á milli kannanna og fyrir utan Elísabetu, sem bætir við sig 0,7 prósentustigum, eru aðrir frambjóðendur á svipuðu reiki og áður.
Í frétt RÚV segir að tveir frambjóðendur skeri sig úr hvað varðar fylgi eftir kyni en það eru þau Davíð og Halla. Tuttugu og tvö prósent karla ætla að kjósa Davíð en 11% kvenna. Halla mælist með næstmest fylgi meðal kvenna en 18% þeirra ætla að kjósa hana. Átta prósent karla ætla að kjósa Höllu.
Þá eru Guðni og Davíð vinsælli eftir því sem fólk er eldra og er því öfugt farið hjá Andra og Höllu.
Guðni er með 59% fylgi hjá þeim sem eru eldri en 65 ára en 46% meðal þeirra sem eru 18 til 24 ára. Davíð mælist með 8% fylgi meðal þeirra sem eru yngri en 25 ára en fylgi hans er 26% hjá þeim sem eru eldri en 65 ára. Andri er næstvinsælasti frambjóðandi þeirra sem eru yngri 44 ára en nýtur þó einungis stuðnings 7% eldri borgara.