Daufur kosningaslagur

Forsetaframbjóðendur Guðni Th. Jóhannesson, Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og …
Forsetaframbjóðendur Guðni Th. Jóhannesson, Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Halla Tómasdóttir. Samsett mynd

Mikil deyfð hefur verið yfir kosningabaráttunni um Bessastaði og almennt virðist lítill áhugi vera fyrir forsetakosningunum. Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en hún telur að línurnar fyrir kosningarnar hafi verið lagðar strax í apríl og hafi lítið breyst síðan þá.

„Ég held að í hugum margra hafi þessi kosningaslagur verið afgreiddur strax í apríl um það leyti sem umræðan um Panamaskjölin gekk yfir. Þá hafði Ólafur Ragnar boðið sig fram, Guðni bauð sig fram og svo Davíð Oddsson. Þá hætti Ólafur Ragnar við og fyrstu skoðanakannanirnar sýndu afgerandi stuðning við Guðna. Síðan þá hefur voðalega lítið gerst,“ segir Stefanía í frétt í Morgunblaðinu í dag.

Lítið um úthringingar

Stefanía telur að margir kjósendur líti á niðurstöður skoðanakannana og hugsi með sér að úrslitin séu þegar ráðin og því þurfi ekki að spá í kosningunum frekar. „Ég held að þeir sem styðji Guðna séu ánægðir með það og eru því hættir að vera stressaðir um að hann muni ekki vinna. Það er ekki mikið verið að reka fólk á kjörstað. Engar úthringingar eða svoleiðis. Ég hef fengið tvö kort frá frambjóðendum inn um lúguna. Annað var auglýsing frá Davíð Oddssyni sem kom með Morgunblaðinu og hitt var bæklingur frá Bæring Ólafssyni sem var borinn út áður en hann hætti við framboð sitt. Annars hefur ekkert komið,“ segir Stefanía.

„Sú staðreynd að flestir hafi þegar gert upp hug sinn hefur markað umræðuna. Til dæmis hefur lítið borið á auglýsingum frambjóðenda. Halla Tómasdóttir er á strætóskýlum og Davíð auglýsir í Morgunblaðinu. Annars hef ég séð eina sjónvarpsauglýsingu og svo smávegis á Facebook og í útvarpinu en ekki mikið,“ bætir hún við.

Spáir ekki sveiflum í lokin

Stefanía segir forvitnilegt að sjá hvernig kjörsókn verði á laugardaginn, en Evrópumótið í knattspyrnu og útskriftir frá Háskóla Íslands geti átt sinn þátt í þátttökunni. Hún segir að niðurstöðurnar muni ekki koma á óvart.

„Guðni mun standa uppi sem næsti forseti Íslands en það er spurning hversu góð kjörsóknin verður og hvort hann nái að halda sér í 50 prósentustigum eða ekki. Sveiflurnar verða ekki þannig að það komi óvæntur sigurvegari.“

Umræðan er fyrirsjáanleg

„Þetta er með því allra daufasta sem ég hef upplifað. Ég hef aldrei áður verið í kosningum þar sem maður er ekkert að spá í þessu,“ segir Stefanía þegar hún ber saman baráttuna í ár við fyrri kosningaslagi.

Hún segir að umræðan um kosningarnar hafi verið fyrirsjáanleg. „Það hefur ekkert sögulegt komið upp. Þegar Guðni Th. Jóhannesson bauð sig fram var fyrirséð að hann yrði spurður út í afstöðu sína til ESB og Icesave. Að sama skapi gat maður séð fyrir að Davíð Oddssyni yrði velt upp úr hruninu. Þá hafa Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir ekkert verið með í umræðunni, hvað þá hinir frambjóðendurnir. Það hefur voðalega lítið verið litið til framtíðar heldur hefur umræðan verið fyrirsjáanleg,“ segir Stefanía.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert