Halla Tómasdóttir heldur áfram að bæta við sig og mælist með 16,3% fylgi í nýrri þjóðmálakönnun um fylgi við frambjóðendur til embættis forseta Íslands sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið dagana 19.-22. júní.
Halla mælist með næst mest fylgi frambjóðenda og bætir við sig fjórum prósentustigum frá síðustu könnun. Hún mældist með 1,5% fylgi í fyrstu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem birt var þann 14. maí sl.
Guðni Th. Jóhannesson er enn langsamlega efstur með 45,9% fylgi en missir þó 9,2 prósentustig á milli kannana. Í fyrstu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið, um miðjan maí, mældist Guðni með 67,1% fylgi.
Davíð Oddsson fylgir fast á hæla Höllu og mælist með 16% fylgi og bætir lítillega við sig frá síðustu könnun. Hann mældist með 17,4% fylgi í fyrstu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Þar rétt á eftir mælist Andri Snær Magnason með 15,7% fylgi. Fylgi hans hefur því aukist um 4,7% frá síðustu könnun, en hann mældist fyrst með 7,8%.
Lítill munur á fylgi Andra Snæs og Davíðs í könnun Fréttablaðsins
Nokkur munur er á fylgi frambjóðenda í könnun Félagsvísindastofnunnar og könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Þar nýtur Guðni Th. Jóhannesson stuðnings 49 prósenta þeirra sem afstöðu.
Halla Tómasdóttir er með stuðning 19,6 prósenta þeirra sem afstöðu taka í könnuninni, en 12,9 prósent segjast ætla að kjósa Andra Snæ Magnason og 12,4 prósent Davíð Oddsson. Telst munurinn á fylgi þeirra Andra og Davíðs vera innan vikmarka.
Sturla Jónsson mældist með 2,5 prósent, en aðrir frambjóðendur voru með minna fylgi.