Guðni gæti sameinað þjóðina

Guðni fagnar kosningasigri sínum í nótt.
Guðni fagnar kosningasigri sínum í nótt. mbl.is/Eggert

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, hafi allar forsendur til þess að fá þjóðina til þess að fylkja sér á bak við sig. Hann gæti nálgast það að verða sameiningartákn þjóðarinnar, líkt og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir.

„Hann hefur þannig framkomu og einhverja áru í kringum sig sem ég held að muni hjálpa honum við að fá þjóðina til þess að standa á bak við sig,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Guðni hlaut 38,49% atkvæða í forsetakosningunum í gær og sigraði nokkuð afgerandi. Halla Tómasdóttir kom þar á eftir en hún hlaut 27,51% atkvæða.

Úrslitin voru ekki alveg í samræmi við síðustu skoðanakannanir sem sýndu meiri mun á fylgi Guðna og Höllu.

Grétar Þór bendir á að skoðanakannanir hafi verið nokkuð réttar að þessum fylgismun undanskildum. „Það varð greinilega færsla á fylgi frá Guðna til Höllu síðustu dagana fyrir kosningar. Það er það sem kannanir náðu ekki alveg utan um.“ Mikil hreyfing hafi verið á fylginu, sér í lagi eftir að síðasta skoðanakönnun fyrir kosningarnar var gerð.

Fylgi Höllu hafi greinilega aukist mikið seinustu daga og þá fyrst og fremst frá Guðna. Hún hafi verið í stöðugri sókn. 

Ekki sýnilegur undir lokin

„Hann var í mikilli varnarbaráttu alla kosningabaráttuna,“ segir Grétar Þór. Eins hafi Guðni verið lítt sýnilegur síðustu dagana á meðan þau þrjú sem komu á eftir honum, Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Halla, hafi verið meira áberandi.

Sturla Jónsson hafi meira að segja auglýst í sjónvarpinu daginn fyrir kosningar.

„Guðni valdi greinilega þessa taktík að fara víða og hitta marga, hringinn í kringum landið, en ekki að setja orku og fé í auglýsingar í fjölmiðlum síðustu dagana. Það kannskir skýrir þetta að einhverju leyti. Hann hefur reyndar sjálfur sagst hafa verið of værukær í restina.

Ef til vill er það einhver hluti af þessari skýringu. Hann hætti bara að sjást í lokin,“ segir hann.

Frambjóðendur í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi.
Frambjóðendur í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurinn hafi þó verið afgerandi og í raun sambærilegur kosningasigri Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996. Ólafur hafi þó unnið með tólf prósentustigum, en Guðni nú með ellefu.

„Auðvitað er hann ekki með meirihlutafylgi hjá þjóðinni, en fylgið er upp undir 40%, þannig að hann má sæmilega vel við una.

Kjörsóknin meiri í ár

Kjörsókn var þó nokkuð meiri í ár heldur en í síðustu kosningum. Alls greiddu 185.390 manns atkvæði og var kjörsókn 75,7%. Í forsetakosningunum 2012 var kjörsóknin 69,3%.

„Þetta eru einstaklega gleðileg tíðindi að kjörsóknin skuli hafa aukist á milli kosninga. Ég var hræddur um að hún myndi dragast saman, ekki síst vegna EM í fótbolta sem hefur vissulega tekið mikið til sín af athygli. Þess vegna kemur þetta skemmtilega á óvart og er bara afskaplega ánægjulegt,“ segir Grétar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert