Hildur Þórðardóttir er sá forsetaframbjóðandi sem notið hefur minnst fylgis í forsetakosningum í sögu lýðveldisins. Hildur hlaut 294 atkvæði en hún auk þriggja annarra frambjóðenda hlutu samanlagt 1,5% fylgi í kosningunum í gær. Það er RÚV sem greinir frá þessu.
Gamla metið átti Hannes Bjarnason sem hlaut 1.556 atkvæði í forsetakosningunum 2012 en það er meira en nokkurt þeirra fjögurra hlaut í gær. Næst á eftir Hildi kom Guðrún Margrét Pálsdóttir með 477 atkvæði, þá Ástþór Magnússon með 615 atkvæði og loks Elísabet Jökulsdóttir sem hlaut 1.280 atkvæði.
Athygli vekur að enginn þessara frambjóðenda hlaut atkvæði í samræmi við þann fjölda meðmælenda sem til þarf til að gefa kost á sér í embættið, að lágmarki 1.500 talsins.