Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi eftirmanni sínum í starfi, Guðna Th. Jóhannessyni, heillaskeyti í morgun með yfirskriftinni „Kveðja til nýkjörins forseta“.
Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá embætti forsetans.
Það hljómar svo:
„Kæri Guðni.
Ég óska þér til hamingju með að vera kjörinn forseti Íslands og vona að farsæld fylgi þér í þeim ábyrgðarmiklu störfum sem senn taka við. Það er mikil gæfa að njóta slíks trausts íslenskrar þjóðar og geta með störfum forseta stuðlað að heill hennar og velgengni á komandi árum.
Við Dorrit óskum fjölskyldu þinni góðrar tíðar á Bessastöðum. Fegurð staðarins, andi sögunnar og svipmikil náttúra búa daglegu lífi einstæða umgjörð og við vonum að þið hjónin og börn ykkar munið njóta hér góðra stunda.
Með bestu óskum um farsæld á nýrri vegferð.
Ólafur Ragnar Grímsson“