„Tilfinningin er einstök“

Guðni Th. með eiginkonu sinni, Elizu Reid, og börnunum þeirra …
Guðni Th. með eiginkonu sinni, Elizu Reid, og börnunum þeirra fjórum. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, segist hlakka til að takast á við ný verkefni og nýjar áskoranir. Hann segir kosningabaráttuna hafa gengið vel. Þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi ávallt verið sér í vil hafi hann aldrei talið sig eiga sigurinn vísan.

Guðni hlaut 71.356 atkvæða í forsetakosningunum, eða 38,49% greiddra atkvæða, og hefur því verið kjörinn sjötti forseti lýðveldisins. Halla Tómasdóttir kom næst á eftir en hún hlaut 27,51% atkvæða.

245.004 manns voru á kjör­skrá en 185.390 at­kvæði voru greidd. Kjör­sókn var því 75,7%.

Guðni bauð fréttamönnum heim til sín við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi eldsnemma í morgunsárið, en fram undan er annasamur dagur. Fyrst taka við fjölmörg fréttaviðtöl í útvarpi og sjónvarpi en síðar í dag hyggst hann fagna úrslitunum með vinum og vandamönnum.

Á morgun heldur hann síðan til Nice í Frakklandi þar sem hann hyggst fylgjast með íslenska karlalandsliðinu spila gegn Englendingum í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu.

„Tilfinningin er einstök, ánægjuleg og gleðileg. Ég hlakka til að takast á við ný verkefni, nýjar áskoranir. Þetta eru búnir að vera annasamir dagar svo ég verð líka hvíldinni feginn þegar hún kemur eftir daginn í dag, ferð til Frakklands á morgun og það sem fylgir því að vera búinn að ná kjöri,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Baráttan erfið á köflum

Guðni segir kosningabaráttuna á undanförnum vikum hafa verið mjög skemmtilega.

„Hún var erfið á köflum. Stundum æstust leikar, en nú þegar niðurstaðan er fengin getur enginn verið eins sáttur og ég. Ég þakka þeim sem voru með mér í framboði, óska þeim velfarnaðar, ber ekki kala til nokkurs manns og held að það sama megi segja um okkur sem vorum í þessum hasar.“

Áttir þú alltaf von á þessum úrslitum?

„Skoðanakannanir voru mér í vil nær allan tímann en úrslitin, lokaúrslitin, sýna okkur öllum að þær segja aldrei alla söguna. Vissulega gáfu þær til kynna að sigurinn væri minn og þannig fór að lokum. En ég gat aldrei verið viss um sigur samt sem áður. Það er svo margt sem getur komið upp á, margt sem getur breyst, þannig að ég leyfði mér aldrei að telja mig eiga sigurinn algjörlega vísan,“ segir hann.

Þess má geta að Guðni á 48 ára afmæli í …
Þess má geta að Guðni á 48 ára afmæli í dag, 26. júní. Í tilefni þess var glæsileg afmælisterta á borðstofuborðinu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Vill undirbúa sig vel

Guðni verður settur í embætti 1. ágúst næstkomandi, venju samkvæmt. Hann segir að næstu dagar og vikur muni helgast af undirbúningi.

„Ég vil koma eins vel búinn undir þetta embætti og mögulegt er. Þannig að ég hyggst gera það með því að tala við fólk, hlusta á fólk, heyra í þeim sem þekkja til embættisins, tala við embættismenn, aðra ráðgjafa og vini og koma þannig til leiks 1. ágúst að ég sé þess fullbúinn að hefja þessa vegferð.“

Fyrsta embættisverkið verði að halda ræðu við innsetningarathöfnina 1. ágúst. „Síðan vil ég fara í heimsóknir um landið og út fyrir landsteinana líka. Og væntanlega verður gengið til þingkosninga í haust og þá gæti reynt á forseta við stjórnarmyndun. Það gæti jafnvel verið það sem mestan tíma tæki þegar kemur fram í október að minnsta kosti.

En vonandi gengur það vel. Sagan segir okkur að stjórnarmyndanir geta gengið treglega og forseti spilar stórt hlutverk, þannig að við sjáum hvað setur í því.“

Flutningar leggjast vel í fjölskylduna

Guðni ræddi við fjölmiðlamenn á heimili sínu í morgunsárið.
Guðni ræddi við fjölmiðlamenn á heimili sínu í morgunsárið. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni og El­iza Reid, eig­in­kona hans, eiga saman fjögur börn, þrjá syni og eina dótt­ur. Börn­in eru Duncan Tind­ur (f. 2007), Don­ald Gunn­ar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013).

Guðni á sömu­leiðis dótt­ur­ina Rut (f. 1994) með fyrri eig­in­konu sinni.

Fjölskyldan mun nú flytjast búferlum á Bessastaði og segir Guðni það leggjast vel í þau Elizu.

„Yngri börnin átta sig kannski ekki alveg á því hvað felst í flutningunum. En þau hlakka til og við erum búin að búa þau undir það að þetta gæti gerst - að við þyrftum að flytja. Þannig að við munum ljúka því eins vel og við getum. 

En þar þarf ég einmitt að vera á velli. Ég þarf að fara með litlu krakkana í leikskóla og vera með þeim í aðlögun. Mig langar til þess að fara í skólann með eldri strákunum, hitta kennara og hjálpa þeim að koma sér fyrir í nýjum skóla. 

Þannig að þótt ég sé orðinn forseti, þá er ég enn fimm barna faðir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert