„Ég er afar ánægður með fréttirnar. Þetta eru tveir af bæði reyndustu og bestu stjórnmálamönnum landsins sem hafa langa sögu um það að vera í hópi frjálslyndra stjórnmálamanna þannig ég get ekki annað en verið mjög glaður yfir því,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, um þá ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, og Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, að ganga til liðs við Viðreisn.
Frétt mbl.is - Nýtir tímann í að stuðla að breytingum
Frétt mbl.is - Þorgerður og Þorsteinn til liðs við Viðreisn
Benedikt segir afar gott og mikilvægt fyrir flokkinn að fá fólk með þennan bakgrunn og reynslu og sérstaklega þau Þorgerði Katrínu og Þorstein þar sem þau séu á sömu línu og flokkurinn. „Maður hefur varla við að taka við góðum fréttum af fólki sem er að ganga til liðs við okkur,“ segir Benedikt.
Flokkurinn stækkar ört en á síðustu fjórum dögum hafa 75 einstaklingar gengið til liðs við hann. „Við fáum mjög jákvæð viðbrögð við okkar stefnu og það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Benedikt.
Spurður um hvernig hann myndi lýsa meginstefnu flokksins í einni setningu segir Benedikt: „Í einni setningu er okkar meginstefna sú að við viljum leyfa fólki að ráða sér sjálft en ekki vera að hugsa fyrir það eins og gömlu flokkarnir hafa verið að gera.“