Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna segir að tillagan hafi verið lögð fram og hún rædd á fundi framkvæmdastjórnar flokksins í gær en tillagan laut að því að færa ætti yfirlitsræðu formanns flokksins aftast í dagskrá þingsins. Tillagan var hins vegar ekki afgreidd.
Anna Kolbrún á sæti í framkvæmdastjórninni en hún tók þátt í fundinum í gegnum síma þar sem hún var stödd fyrir norðan. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagði í ræðupúlti á flokksþinginu í dag að slík tillaga hafi verið borin upp en honum hafi ekki litist á hugmyndina. Segir Anna í samtali við mbl.is að tillagan hafi ekki verið borin upp á réttan hátt á fundinum enda hefði henni þá átt að berast slík tillaga.
Frétt mbl.is: „Menn hafa haldið fram ósannindum“
Þá segir Anna Kolbrún það andrúmsloft, sem Ásmundur Einar Daðason lýsti í ræðu sinni á þinginu, ekki vera sína upplifun af fundinum. Umræður hafi jú verið hreinskiptar en lætin hafi langt í frá verið jafn mikil og þau sem Ásmundur lýsti.
Loks lýsir Anna yfir vonbrigðum sínum yfir því að Ásmundur Einar hafi rofið trúnað um það sem fram fór á fundinum með þeim hætti sem hann gerði á þinginu.