Taktu kosningaprófið

Fyrsta spurningin í vefkönnun Kosningavitans er um hælisleitendur.
Fyrsta spurningin í vefkönnun Kosningavitans er um hælisleitendur. Skjáskot/egkys.is

Ef þú ert í vafa um hvaða stjórnmálaflokk þú átt að kjósa í næstu alþingiskosningum geturðu orðið einhvers vísari með því að svara spurningum Kosningavitans sem fór nýverið í loftið.

Kosningavitinn er gagnvirk vefkönnun þar sem kjósendur geta séð hversu sammála þeir eru þeim stjórnmálaflokkum sem eru í framboði til Alþingis, bæði hvað varðar einstök málefni sem og hugmyndafræðilega afstöðu.

Spurningarnar eru 30 talsins og þessar sömu spurningar voru lagðar fyrir efstu frambjóðendur á listunum og einnig sérfræðinga í íslenskum stjórnmálum.

„Af þessum þrjátíu spurningum snúast tíu um hægri/vinstri, afstöðu til hlutverks ríkisins í efnahagsmálum. Aðrar tíu mæla þjóðhyggju/alþjóðahyggju. Í þjóðhyggju er lögð áhersla á sjálfstæði, fullveldi og að íslensk menning haldi sérstöðu sinni á meðan alþjóðahyggjan snýst um þátttöku í alþjóðastofnunum og fjölmenningu. Síðustu tíu eru um ýmis mál sem skipta máli eins og t.d. flugvallarmálið og stjórnarskrármálið,“ segir Hafsteinn Einarsson, verkefnastjóri Kosningavitans.

Ekki vél sem segir þér hvað þú átt að kjósa 

„Þetta er ekki vél sem segir þér hvað þú átt að kjósa heldur meira próf sem þú getur svo haldið áfram að bera skoðanir þínar við stefnu flokkanna,“ segir Hafsteinn.

Stillt er upp fullyrðingum sem hægt er að svara frá svarmöguleikanum sammála til ósammála. Notuð er þáttagreining til að finna út hvaða breytur hafa samband innbyrðis. Með þessum hætti eru fyrstu tuttugu spurningarnar fundnar út. 

„Við leitum eftir spurningum sem flokkarnir svara á ólíkan hátt. Þetta eru  fullyrðingar sem ekki allir geta verið sammála heldur mæla þær frekar hugmyndafræðilega afstöðu,“ segir Hafsteinn.

Prósentutalan gefur skýrustu myndina

Niðurstaða könnunarinnar skilar fyrst prósentutölu sem tekur tillit til allra 30 spurninganna.

„Að einhverju leyti er það besti mælikvarði á hversu sammála þú ert framboðinu,“ segir Hafsteinn.

Næst birtist mynd þar sem afstaða kjósanda og flokka er staðsett á tveimur ásum, sem hvor um sig byggir á tíu spurningum sem endurspegla hugmyndafræðilega afstöðu. Myndin nýtist til að átta sig á eigin hugmyndafræðilegri stöðu í samanburði við stjórnmálaflokkana.

Þetta er í annað sinn sem Kosningavitinn lýsir kjósendum leið en fyrir alþingiskosningarnar 2013 var hann stofnaður með það að markmiði að auka kosningaþátttöku ungs fólks.

Kosningavitinn – HelpMeVote, er samstarfsverkefni Félagsvísindastofnunar, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Landssambands æskulýðsfélaga við Ioannis Andreadis, prófessor við Háskólann í Þessalónikíu. Einnig koma að verkefninu Eva H. Önnudóttir, Hulda Þórisdóttir og Agnar Freyr Helgason.

Kosningavitinn er opinn almenningi á vefnum www.egkys.is

Hægt er að fylgjast með á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #égkýs.

Spurningar Kosningavitans byggja á svörum stjórnmálamanna.
Spurningar Kosningavitans byggja á svörum stjórnmálamanna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka